Það er svo lítill munur

á því að vera fremstur og vinna sigra sem allir muna eftir eða vera í einhverju sæti sem enginn man eftir.  Hver man ekki eftir Lance Armstrong sem hefur unnið einhverja erfiðustu íþróttakeppni í heimi oftar en nokkur annar,  Tour de France hjólreiðarnar.  Hver man ekki eftir Michael Phelps  sem fékk  8 eða 9 gullverðlaun á Olympíuleikunum í sumar eða Michaerl Schumacher sem hefur unnið F1 oftar en nokkur annar.  Allir þessir og þeir sem eru fyrsta sæti hver fyrir sig, hafa allir lagt á sig eitthvað extra, eitthvað örlítið meira til að ná þessum örlitla betri árangri en þeir sem koma næstir á eftir. 

Eins og allir vita þá er ekki nema einnar gráðu munur á 99 gráðum og 100 gráðum en við hundrað gráður breytist vatn í gufu og þá byrja hlutirnir að gerast og gríðarleg orka verður til. 

Mig  langar að smella inn krækju um muninn á  99 gráðum og 100 gráðum á Celcius  eða  211  og 212 gráðum á Farenheit.   Ef þið hafið ekki séð þetta myndband þá ráðlegg ég ykkur að leyfa því að rúlla þær 3 mínútur sem það tekur,  góða skemmtun.

www.212-degrees.com  

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar og  hafið það eins og þið viljið.

Magnús G.  Whistling


Bifröst

Í gær var hollvinadagur Bifrastar í tilefni af 90 ára afmæli Samvinnuskólans, nú Háskólans á Bifröst.  Ég ásamt nokkrum bekkjarfélögum mínum fór uppí Bifröst í gærkvöldi og tók þátt í ótrúlega miklu stuði.  Frægasta skólahljómsveit Bifrastar, Upplyfting (á ensku  Viagra samkv. stofnandanum KBS) hélt  tónleika og í framhaldinu feikna gott ball.  Traustur vinur og önnur fræg ástarlög og  vangalög voru spiluð af innlifun og það var ekki laust við að einhverjir dyttu 20 - 30 ár aftur í tímann, sérstaklega í einstökum vangalögum.  Upplyfting hefur engu gleymt og  nýju lögin sem þeir frumfluttu voru  í betri kantinum og ég hlakka til að kaupa nýju plötuna þeirra sem vonandi kemur út ekki síðar en á næsta ári.

Ég  verð að viðurkenna að það er nokkuð síðan ég hef skemmt mér svona vel, já og dansað í rúma 3 tíma stanslaust.  Þetta var frábært framtak hjá skólanum og Hollvinasamtökunum og ég er strax farinn að hlakka til að mæta í 100 ára afmælið. 

Smelli inn skannaðri mynd af tveimur fyrrverandi kaupfélagsstjórum á Bifröst þeim Jóhannesi Má  og Rögnu Georgs við Kaupfélagsstjóraskiptin.

image1

 

Hafið það eins og þið viljið

Magnús G.  Tounge


13. september

Talan 13 hefur alltaf  verið í einhverju uppáhaldi hjá mér,  ég veit eiginlega ekki af hverju en það skiptir engu máli,  hún er bara í uppáhaldi.  Í  dag  reikar hugurinn til systur minnar  sem er að ná þeim merka áfanga að verða 50 ára  í dag,  innilega til hamingju með daginn  kæra  Svanhvít,  ég  skil  ekkert í þér að þú skulir ekki halda veislu.  Í  dag  reikar líka hugurinn austur á Tannastaðatanga víð Ölfusá, þar sem  ég var við veiðar með föður mínum fyrir 22 árum síðan og hann féll snögglega frá,  fékk hjartaáfall eftir að hafa verið búinn að setja í 3 laxa í beit.   Það er nú varla hægt að hugsa sér að fara við betri aðstæður.  Blessuð sé minning hans.   

Ég  var  svo heppinn i fyrrakvöld að ætla í bíó og fór inná netið að kíkja á hvaða myndir væru í boði og endaði á því að kaupa mér 2 miða á tónleika með Herði Torfa.   Ég er búinn að vera hrifinn að söngvunum hans Harðar í áratugi og oft hef ég ætlað á tónleika með honum.  Nú gerðist það og tónleikarnir voru í einu orði sagt  frábærir.  

Í dag er Hollvinadagur Bifrastar, Samvinnuskólans og það verður ball með Upplyftingu á Bifröst í kvöld,  ég á margar góðar minnigar frá Bifrastarárunum og ætli ég skelli mér ekki bara uppí Bifröst  seinnipartinn og upplifi eitthvað af þeirri frábæru stemmningu sem var í Bifröst.  vona bara að Magga Scheving mæti. 

Breiðablik á spila í dag við Fram og vonandi vinna okkar menn og tryggja sig nokkuð nálægt toppnum þetta árið,  annars  fer nú alveg að koma að því að Breiðablik þurfa að vinna annaðhvort Íslandsmeistartitil og eða  Bikarinn,  þetta er allt of gott lið  til að hafa aldrei unnið titil. 

Áfram Breiðablik

Hafið það eins og þið viljið um helgina..

Magnús G.  Halo


Leiðinlegt að tapa þessum leik

en það var stór stund hjá nokkrum ungum knattspyrnumönnum í Laugardalnum í kvöld þegar þeir fengu að leiða leikmenn liðanna inná völlinn..

Smelli inn tveimur myndum frá leiknum í kvöld;

Hákon leiddi leikmann nr. 8 hjá Skotum  

HÖM á Landsleiknum

Hér eru bæði liðin og allir krakkarnir,  þar af 3 félagar Hákonar úr Breiðablik,  Kristófer, Alfons og Pétur. 

Landsleikur við Skota 10. sept. 2008 023

Þetta  var skemmtilegt augnablik og vonandi á ég eftir að sjá Hákon ganga inná Laugardalsvöllinn aftur eftir nokkur ár og þá til að spila fyrir Íslands hönd,  hver  veit ?

Hafðu það eins og þú vilt

Magnús G. Joyful

 


Leikur í kvöld

Ég  tek undir með Ólafi Stefánssyni,  það eru forréttindi að vera Íslendingur.  #How do you like Iceland" spyrjum við oft gesti og sérstaklega fræga gesti sem sækja okkur heim og við viljum bara heyra að fólki líki vel við land og þjóð,  hver vill það ekki ?  Þetta er ekkert öðruvísi hér en annarsstaðar, ég hef verið svo lánssamur að búa í þremur erlendum löndum,  Englandi og tveimur Afríkuríkjum,  Namibíu og Marokkó.  Það eru alveg sömu spurningar sem íbúar þessara landa spurðu mig gestinn,  How do you like ..........  og auðvitað viltu þeir bara heyra eitthvað gott til að auka þjóðarstoltið sitt. 

En í hverju felast forréttindin?  Í mínum huga  fyrst og fremst í aðgengi að þjónustu hverju nafni sem hún nefnist, hvort sem hún er rekin af hinu opinbera, sveitarfélögum eða fyrirtækjum og einstaklingum.  Samfélaginu, náttúru landsins og umhverfinu öllu.  Ágætur samstarfsmaður minn til nokkurra ári  sagði eitt sinn við mig að  Ísland væri land fyrir stráka með dellur.  Stangveiði, skotveiði, sjóstöng  ekkert mál, vélsleðaferðir, motorcross, vatnasport, hraðbátar, selglbátar, ekkert mál.  Fjallgöngur, göngur um óbyggðir, útlegur um sumar og vetur,  jeppaferðir yfir ár og á jöklum.  Hjólreiðar á þjóðvegum og vegleysum, allt í boði.  Sem betur fer eru líka til stelpur sem hafa sömu dellur og strákar þannig að þetta er land fyrir alla.   Hugsið ykkur alla uppbygginguna í Íþróttamannvirkjum á síðustu 10 árum, Knatthúsin, íþróttahúsin, sudlaugarnar, göngustígana, heilusræktarstöðvarnar, ótrúlegt.  

Það eru auðvitað forréttindi að vera Íslendingur og það veit maður svo vel þegar maður hefur búið annarsstaðar.   En að leiknum í kvöld,  ég  fæ að upplifa forréttindi af því að ég ætla að fara með góðan vin minn sem bundinn er við hjólastól/rafskutlu á leikinn og  KSÍ  býður okkur báðum á leikinn endurgjaldslaust og það er hluti af þessum forréttindum að vera Íslendingur.  Takk KSÍ  fyrir  þetta frábæra boð.  

Ég  fæ reyndar líka sérstakt tækifæri til að vera stoltur faðir í kvöld því að yngri sonur minn fær að leiða einhvern leikmann Íslands eða Skotlands inná völlinn  í kvöld og ekki var laust við að  minn maður væri spenntur í morgun og pælingar um á hverjum hann myndi lenda.

Ég  er viss um að Íslenska landsliðið í fótbolta gefur okkur ærna ástæðu til að njóta þeirra forréttinda að vera Íslendingar í kvöld, eins og þeir gerðu svo eftirminnilega á laugardaginn í Osló.

Hafið það eins og þið viljið

Áfram Ísland.

Magnús G. Wink

ÞRÍÞRAUIN Á ÍSAFIRÐI 059


Það hafðist og gott betur..

Marbella komst í mark,  enginn dáinn, allir heilir og glaðir.  Marbella er semsagt  þríþrautarliðið okkar  sem var nafnlaust þangað til í gærkvöldi í Edinborgarhúsinu, þar sem við fögnuðum því að hafa komist í klakklaust í mark í fyrstu þríþrautinni okkar allra. Okkur gekk vel og vorum nálægt þeim tímum sem við settum okkur að ná.  Að vísu gleymdi Bella sundbolnum heima, en það reddaðist og  ég datt þegar ég kom á skiptistöðina á Ísafirði,  var búinn að gleyma því á lappirnar voru fastar við pedalana og ég hentist á hausinn en slapp með skrámur og lítilisháttar handarmeiðsl, þetta var samt töff.  Uppúr stendur að ferðin vestur var rosalega skemmtileg, gaman að keppa og skemmta sér með þessum frábæru vestfirðingum.   Ég er strax farinn að hlakka til næstu þríþrautar á Ísafirði og stefni á að taka þátt aftur á næsta ári.  Ég  vil nú nota tækifærið og þakka liðsfélögum mínum Öldu og Berglindi fyrir frábæra daga og  skemmtun og svo þeim Guðrúnu og Steina fyrir að mæta og hvetja okkur svona vel.   Ekki má svo gleyma að þakka Guðjóni Má fyrir samfylgdina vestur og Adda fyrir að koma með okkur á ballið í Edinborgarhúsinu,  ball sem var í daufara lagi fyrir vestfirsk böll.

7. september er mikill merkisdagur hjá mér og vekur alltaf upp blíðar minningar um skemmtilegan dag fyrir 23 árum þegar við Helga giftum okkur.

Hafið það eins og þið viljið.

Magnús G. Cool

ÞRÍÞRAUIN Á ÍSAFIRÐI 019

 


Ekki datt mér í hug

þegar ég keypti hjólið mitt af  Jóa Vald í Hvelli í mars 2003 að ég ætti eftir að fá mér annað hjól síðar,  racer  til að keppa á.  Þegar ég keypti hjólið og ákvað að hjóla á því heim, þá þurfti ég að hjóla upp smiðjuveginn ca. 300 mtr og ég hélt að þetta yrði mitt síðasta og í alvöru þá var ég að hugsa um að snúa við og fá að skila hjólinu aftur.  Ég var að niðurlotum kominn þegar fór að halla undan brekkunni og ég gat látið mig renna niður allan Kópavogsdalinn og heim í Smárann.  Síðan þetta gerðist eru liðin rúm 20 kg. og að baki um 5000 km, hringvegurinn að verða búinn.  Í þessum skrifuðum orðum er ég að taka mig til og fara vestur á firði, eins og ég gerði líka 2003, til að keppa í þríþrautarliði í Vasa 2000 þríþrautinni sem verður í Bolungarvík og Ísafirði á morgun.  Já á dauða mínum átti ég von en að ég ætti eftir að keppa í íþróttum skall á á mér eins og Katarína á New Orleans forðum.  Í  liðinu með mér eru Berglind Hlynsdóttir á Þingeyri og Alda Gylfadóttir á Ísafirði og við ætlum að gera okkar besta og aðeins betur ef það er það sem þarf.  Þetta verður allavega gaman og til þess er leikurinn gerður. 

Já svona er lífið Wink

Njótið helgarinnar og hafið það eins og þið viljið

Magnús G. Whistling

í TUNGUDAL Smá


Ég fór á stefnumót

fyrir 25 árum síðan við flotta stelpu sem var í Háskólanum og vann með skólanum sem þjónn á Torfunni.  2. september 1983 sá ég Breiðablik líka tapa fyrir Þrótti á Kópavogsvelli, sem voru auðvitað vonbrigði eins og í gær þegar Breiðablik tapaði fyrir KR.   En þetta vonbrigðiskast stóð ekki lengi þarna um árið en svo var þessu stefnumóti fyrir að þakka,  stefnumóti sem stóð í 23 ár. Að mæta á þessu stefnumóti var eitt mitt mesta gæfuspor í lífinu og allt sem fylgdi á eftir gerði mig að betri manni.  Ég  er þakklátur fyrir að hafa fengið að deila súru og sætu þennan tíma og  fyrir börnin okkar þrjú sem við eigum saman.  Elsta barnið okkar á meira að segja afmæli í dag og auðvitað óska ég Guðjóni Má til hamingju með daginn sinn  þann 22 í röðinni.

Vandið ykkur á stefnumótunum þau geta staðið ansi lengi.

Hafið það eins og þið viljið

Magnús G. Whistling

 


Því miður

varð ég að loka fyrir gestabókina á síðunni minni og  einnig fyrir athugasemdir við bloggfærslurnar, vegna óskemmtilegrar reynslu sem ég varð fyrir hér á síðunni í gær.  Ákveðinn einstaklingur sem tæplega hefur verið með sjálfum sér setti inn færslu í gestabókina mína og af tillitssemi við þennan einstakling og þá sem hann vitnaði í ákvað ég að fjarlægja færsluna og takmarka aðganginn.  Ég vona að þið sem eruð að skoða síðuna mína verðið ekki fyrir óþægindum vegna þessa.   Þessi síða mín á að vera til gamans en ekki vettvangur fyrir skítkast og lygar um fólk.

Ég  held að orðatiltæki dagsins hljóti að vera;  Það er oft gott að þegja og vera talinn heimskur, en tala og  taka af allan vafa.

Þakka ykkur fyrir skilninginn og hafið það eins og þið viljið.

Magnús G. Angry

Óþekki maðurinn


September

er klárlega mánuðrinn minn og  ég er glaður að hann er byrjaður og ekki byrjar hann leiðinlega, veðrið er frábært eins og svo oft í september.  Í  kvöld verður undanúrslitaleikur í bikarnum og  liðið mitt er að spila og ég hef fulla trú á að þeir fari í úrslitin núna.. Áfram Breiðablilk. Mánuðurinn er fullur af merkisdögum fyrir mig og mína, ég og börnin mín tvö eldri eigum afmæli í mánuðinum, ég ætla vestur að keppa í þríþraut og vonandi austur líka í framhaldinu.  Það verður Mega sportráðstefna í Háskólabíó á afmælisdaginn minn,  það verður Galadinner daginn áður.  Mér sýnist september vera orðinn fullur af skemmtilegum uppákomum núþegar og ég veit að ég kem vel útúr þessum september og hann á eftir að færa mér mikla gæfu. 

Byrjaði mánuðinn á því að hjóla í gegnum Heiðmörkina í morgun og ég get ekkert lýst því hvernig það var, eins og veðrið var í morgun, þið verðið bara að prófa og upplifa sjálf.

Hafið það eins og þið viljið í september.

Magnús G. Whistling


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband