Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Single á sunnudagskvöldi

Síðasti sunnudagurinn í nóvember er að kveldi kominn og nýtt kirkjuár hafið.  Ég átti því láni að fagna í gærkvöldi að fagna kirkjuársgamlárskvöldi í "Tilhleypingapartý í" hjá  Séra Pétri í Óháða Söfnuðinum.  Einu skilyrðin til að komast í þetta partý  er að vera einhleypur "single" já og auðvitað vera boðinn í teitið.   Ég fékk boð á föstudaginn og sagði strax já af einskærri forvitni og lét slag standa og mætti  í  litlu íbúðina hans Péturs sem tók á móti mér eins og við værum gamlir skólafélagar.  Gestrisnin sem ég mætti var bara ótrúleg og allir brosandi og ánægðir.  Eftir því sem leið á kvöldið fjölgaði og þetta var svona eins og umferðamiðstöð, fólk kom og fór og um tíma voru allar vistarverur íbúðarinnar fullar af fólki.  Þarna hitti ég fólk sem þekkti og hafði ekki hitt lengi og annað sem ég kynntist og átti skemmtilegar samræður við og uppbyggjandi.   Séra Pétur er búinn að halda þessum siði úti í um 30 ár og engan bilbug er á honum að finna og hann sagði að ég yrði velkomin næsta ár,  ef ég væri ennþá einhleypur því það er algert skilyrði fyrir inngöngu.  Frábært kvöld og stórkostleg hugmynd .   Takk fyrir að bjóða mér með Guðbjörg..

Ég hef nú ekki tjáð mig mikið á blogginu mínu hér að udanförnu, sérstaklega vegna þess að ég bara vildi aðeins snúa ofan af mér í öllu þessu krepputali og ég vék mér aðeins undan fréttum, en auðvitað getur maður ekki alveg komist hjá því að fylgjst með.   Nokkur ótrúleg mál hafa komið á daginn undanfarna viku og eins og Stím  og  Giftar málin sem orsaka nú bara hroll þegar maður hugsar til þeirra,  var Axeli Gíslasyni hugsanlega mokað útúr Samvinnutryggingum GT (forvera) Giftar af því að hann var ekki til í að braska með eigur annarra, ég bara spyr ?  Þetta Giftar mál verður að rannsaka í botn og ákæra og dæma menn ef þeir hafa gerst sekir um glæpi.  Ég er einn af þeim sem átti fé í þessu félagi og enginn hafði heimild til að gefa annar en ég.  Einnig finnst mér þetta Stím mál alveg ótrúlega skondið og vera svo flott dæmi um ruglið og blinduna sem menn voru haldnir um að hlutirnir mættu ekki og gætu ekki lækkað í verði, eins og hlutabréfin í Glitni, því þá væri veislan búin.  Ekki veit ég hvort þetta er löglegt (hlýtur að vera á grensunni) en vissulega er þetta á öllum landamærum um siðleysi, heiðarleika og trúverðugleika sem banki verður að hafa.

Ríkisstjórnin situr sem fastast og mér finnst menn og konur í stjórninni vera að reyna að telja okkur trú um að að ástandið verði miklu verra ef lýðræðinu verður hleypt lausu og fólki gefinn kostur að velja sér Leiðtoga, því enginn er í því hlutverki núna, það stígur enginn upp og tekur af skarið, nema Þorgerður Katrín sem er eitthvað að burðast við það, löskuð af umræðu um þáttöku eiginmanns hennar í einhverju sukku í Kaupþingi,  ég held hún segi satt um sinn þátt í því máli, en traustið er bara farið  þvi miður og hún nær ekki í gegn alla vega ekki ennþá.  En af öllum öðrum ólöstuðum á stjórnarheimilinu þá, að mínu mati ber hún af eins og gull af eir og hlýtur að eiga góða möguleika á að leiða flokkinn á næstu árum, eða þann hluta hans sem vill ESB aðild, ég held hann klofni í herðar niður á vormánuðum. 

Það er nú varla hægt að tala ógrátandi um blessaðan Framsóknarflokkinn sem er bara í henglum eftir þessa sjálfmiðuðu ákvörðun formannsins sem gafst upp á ögurstundu og hljóp með skottið á milli fótanna til heitu landanna, þegar eitthvert mesta frost sem komið hefur í íslensku samfélagi gengur yfir.  Að mínu mati er þetta vingulsháttur og ég vona að Guðni finni sér verkefni í veislustjórn  því í því hlutverki er hann frábær og fáir betri en hann á því sviði.  Ég held að framsóknarflokkurinn sem stofnun eigi góða framtíð fyrir sér,  EF vel tekst til við að skipta um forystu í flokknum og þá á ég við stjórn og forystumenn flokksins þ.m.t. alþingismenn hans alla  sem setið hafa undanfarin 2 kjörtímabil, þetta og síðasta og lífaldur fólks á ekki að ráða því hvort það situr er fer, heldur þáttakan og ábyrgðin sem eiga að bera á því ástandi sem nú ríkir.  Ég held að stefna og hugsjónir Framsóknarflokksins hafi verið mistúlkaðar og misnotaðar á undanförnum árum og þessvegna hefur fólk flúið flokkinn og fundið sér stað annarsstaðar.  Flokkurinn flaut frá fólkinu og ég held að það hafi gerst af því að hann hefur verið stjórnlaus mjög lengi og  það sýnir sig í því hvernig forystumenn flokksins undanfarna áratugi yfirgáfu hann,  fyrst Halldór Ásgrímsson fyrir 2 árum eða svo  og svo Guðni Ágústsson núna,  hvernig þeir yfirgáfu flokkinn hlýtur að kalla á spurningar um hæfileika þeirra til að leiða stjórnmálaflokk.  Ég  vona bara að flokknum auðnist að finna sér "alvöru" leiðtoga til að leiða flokkinn inn í framtíðina og takast á við verkefnin sem framundan eru,  annars verður hann kominn í þátíð innan nokkurra missera. 

Hafið það eins og þið viljið,  fullveldisdagurinn á morgun og við undir hælnum á IMF og Seðlabankanum, ég held ég vildi frekar vera í ESB.  

Magnús G.  Whistling 


Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifinn

af Davíð Oddssyni sem stjórnmálamanni, fannst hann oftast hrokafullur og oft tala niður til fólks.  Hann gerir þetta svolítið ennþá kallinn og þess vegna hefur hann skapað sér óvildarmenn og óvilldin í hans garð er að aukast og reyndar finnst mér þetta nú stundum jaðra við einelti og hann er augljóslega rúinn öllu trausti,  hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.   Það er  bara ekkert spurt um sanngirni þegar pólitík er annars vegar og þegar þjóðin er að taka á sig mestu byrgðar sem nokkur þjóð hefur tekið á sig vegna afglapa örfárra manna,  bankamanna, þingmanna og embættismanna.  Davíð verður ekki tekinn útúr þeim hópi,  hann er einn af þeim sem er ábyrgur og á að axla sína ábyrgð.   

Hinsvegar vil ég taka ofan hatt minn fyrir Davíð, fyrir að tala umbúðalaust um hlutina,  hætta þessu aumingjavæli um stöðuna og  segja ekkert eða í sumum tilfellum ljúga að þjóðinni eins og ráðherrarnir hafa gert undanfarnar vikur.   Það verður auðvitað að tala umbúðalaust og það gerir Davíð þessa dagana sem betur fer og bara þessvegna held ég að hann ætti að sitja aðeins lengur í seðlabankanum sem er hvort sem er orðinn útibú frá IMF og það skiptir sennilega litlu eða engu máli hver er útibússtjóri.    Ég skora á DO að tala bara út um hlutina  og  segja þjóðinni  það sem hann íjaði að í ræðunni í gær og allir hafa misst vatn útaf,  sérstaklega ráðherrar í ríkisstjórninni. 

Hafið það svo bara eins og þið viljið

Magnús G. Cool


Íshokkí er íþrótt sem ég er kynnast

þessa dagana í gegnum yngri son minn sem er byrjaður að æfa aftur með SR (Skautafélagi Reykjavíkur).  Nú um helgina er mót og hefur þeim í 5 flokki  B  gengið mjög vel, unnið 2 leiki og gert einn jafntefli.   Næsti leikur verður kl 0730 í fyrramálið (þetta er náttúrulega íþrótt fyrir töffara og þessvegna mæta menn á þessum tíma),  mæting kl. 0700  og  ekki veitir af til að klæða sig í allar brynjurnar og varnarbúnaðinn.  Ég er aðeins að byrja að skilja íshokkí  og reglurnar sem þeir spila eftir.  Þetta er náttúrulega eins og allar keppnisíþróttir mjög spennandi. 

Smelli inn mynd af drengnum í gallanum ..

Hafið það annars eins og þið viljið

Magnús G. Cool

  ÍSHOKKÍ MÓT NÓV. 2008 017


Kastljós í kvöld

Ég er ennþá að velta fyrir mér hvort ég heyrði Björgólf fyrrverandi bankaráðsformann Landsbankans segja að hann hafi ekki vitað hvernig ofurlaunasamningar bankastjóranna voru tilkomnir.  Þessir samningar hefðu komið frá útlöndum þegar Landsbankinn keypti fyrirtæki þar.  Samdi ekki formaður stjórnar bankans við bankastjórana ?  ef  ekki hann,  hver þá ?  og  þá vaknar sú spurning hver í raun stjórnaði Landsbankanum.   Annars  kom ýmislegt fram í þessum þætti sem ég er alveg sammála BG  um eins og þeim afglöpum ríkisstjórnarinnar og annarra tengdra aðila að brjóta jafnræðisreglu EES  samningsins, sem ég held að fyrst og fremst það atriði hafi kostað okkur miklu meira en hrun bankanna.  BG  talaði líka oft og iðulega um að þjóðin myndi ekki skaðast af ICESAVE vegna þess að til væru eignir á móti.  Þessu er ég algerlega ósammála jafnvel þó að eignirnar séu til og verði til.   Tjónið sem þessir reikningar og deilurnar um þá eru búnir að valda okkur gríðarlegum skaða og kannski óbætanlegum,  hverjum svo sem um er að kenna.  Það er alla vega tæplega hægt að kenna almennum borgurunum á Íslandi um þann skaða,  þó að byrðunum mórölskum og fjárhagslegum verði dembt á okkur.

Eftir því sem fleiri tjá sig um þessi mál, þá verður þetta nú allt skýrara og ljósara fyrir okkur sem erum áhorfendur og ég verð að segja fyrir mína parta að ég verð nú eiginlega bara meira og meira undrandi á því hvernig staðið var að málum, hvorttveggja af hendi eigenda bankanna, stjórnendum þeirra og síðast en ekki síst eftirlitsins með hagsmunum þjóðarinnar sem eru þingmenn allra flokka og eftirlitsstofnanir þingsins og ríkisstjórnarinnar eins og SÍ og FME. 

Öll þessi leynd sem hvílir yfir öllum hlutum er ógeðfelld og framkallar mikið vantraust á allt stjórnkerfið og ég hef það á tilfinningunni að bankarnir nýju njóti ekki trausts almennings og er það bagalegt.  Landið er einangrað, eins og innflutt gæludýr í Hrísey, og sífellt hallar meir undan fæti.  Ríkisstjórnin virðist algerlega máttlaus og ráðalaus og minnir mig eiginlega á eftirfarandi  þulu;

Stofa mannlaus,

lampi ljóslaus,

stúlka saklaus,

kom inn klæðalaus,

maður allslaus,

lagðist á´ana verjulaus,

en hún slapp barnlaus,

því hann var náttúrulaus.

 

Og svo geta menn leikið  sér með persónur og leikendur í þessari þulu.

Ég þarf örugglega að horfa aftur á Kastljós í nótt til að ná öllu sem Bjöggi sagði.

Hafið það eins og þið viljið

Magnús G.  Wink

 

 


Ég hef verið að velta fyrir mér

undanfarið hvers vegna við erum komin í þá stöðu sem við erum í og mín niðurstaða er eftirfarandi; Alger skortur á trausti.  Ég held að upphaf fjármálakreppunnar í USA  hafi verið skortur á trausti á gagnvart skuldurum húsnæðislánanna (undirmálslánanna) menn hættu að treysta því að skuldararnir gætu borgað.  Nothing is as fast as the speed of trust,  segir einhversstaðar og  það sama á við um hraða vantraustsins.  Þegar traustið þvarr í USA  fór það eins og eldur í sinu um allar koppagrundir alheimsins og nú er svo komið að við Íslendingar erum gjörsamlega rúnir öllu trausti og við fáum ekki einu sinni aðstoð  IMF  sem aðstoðar þriðja heims ríki og afgreiðir umsóknir þeirra á nokkrum dögum, en þeir treysta ekki áætlunum okkar sem ég hélt að hefðu verið lagðar fram fyrir löngu,  í það minnsta minnir mig að Geir hafi sagt það, þegar umsóknin var lögð fram.  Ég  get ekki leynt því að mér finnst vera alger  skjaldböku bragur á ríkisstjórninni,  kannski er ekki hægt að vinna þetta hraðar,  en afhverju í ósköpunum koma menn ekki með skýringar fyrir okkur.  Það er eins og ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir því að þjóðin er tiltölulega vel menntuð og  krefst svara og skýringa,  við viljum ekki láta kalla okkur lýð eða skríl eða vitleysinga eins og fyrrverandi forseti alþingis hafði á orði þegar hann þurfti að fara bakdyramegin inní Alþingishúsið,  Hvaða vitleysa er þetta !!  sagði  höfðinginn þegar hann mætti smá mótspyrnu og mjög eðlilegum ábendingum um óánægju fólksins í landinu.  Ég tek ofan fyrir fólkinu sem myndar skjaldborg um Alþingishúsið og mótmælir í bænum á Laugardögum.  Langstærsti hluti þessa fólks hefur misst allt traust á stjórnvöldum landsins, stjórn og stjórnarandstöðu og embættismönnum sem gleymdu sér á vaktinni.

Leiðtogar ríkisstjórnarinnar eru rúnir öllu trausti og þeir munu ekki geta endurheimt það hjá þjóðinni að ég tel og þessvegna munu þeir ekki geta endurheimt traust á Íslandi og Íslendingum hjá öðrum þjóðum.   Hugsa sér að heyra fréttir af því að fjármálaráðherrann okkar skuli vera skammaður í Brussel af kollegum sínum, ljótt er, ef satt er.  Forsetinn sjálfur að verða sér og þjóðinni til skammar í hádegisverði hjá danska sendiherranum,  ljótt er, ef satt er.   Ekki veit ég hvort þessar fréttir eru réttar og sannar. Hvers vegna í ósköpunum komast svona fréttir á kreik og ef þetta er rangt þá verður að upplýsa okkur um það strax annars bara förum við að trúa því að þetta sé rétt og þá minnkar traustið enn og aftur. 

Það verður einhver að rísa upp núna og verða raunverulegur leiðtogi þessarar þjóðar,  ég bara get ekki að því gert að mér finnst ríkisstjórnin vera eins og skjalbökupar í göngutúr á sunnudagseftirmiðdegi og stjórnarandstaðan kallar annað slagið á parið og segir því að haska sér nú, en ekkert gerist því skjaldbökur eru skjaldbökur og komast ekkert áfram, eins og allir vita.

Það sem Íslendingar þurfa nú er að endurheimta traustið og ef okkur tekst það fljótlega, þá er ekkert sem hefur meiri hraða en traustið og við náum vopnum okkar á ný.   Við verðum að finna okkur nýja leiðtoga í stjórnmálaflokkunum sem við getum treyst svo við komust áfram og úr sporunum á meiri hraða en skjaldbökurnar.

Mig langar að setja inn hlekk með stuttu myndbandi sem mér var bent á í morgun og snart mig. Myndband um hversu mikilvægt er að hafa jákvætt viðhorf til lífsins og þess sem það hefur uppá að bjóða á hverjum tíma.   Og af þessu tilefni segi ég;

http://www.facebook.com/ext/share.php?sid=33581089452&h=y4Uid

 

Hafið það eins og þið viljið og förum að einhenda okkur í að endurvekja traustið.

Magnús G  Whistling

 


Where are you from

spurði afgreiðslumaður á Cafe Nero á Heathrow s.l. fimmtudag.  Ég sagði,  Do you really want to know ?  Yes ofcourse, sagði hann.   Ok I am from Iceland, sagði ég.  OH,  are you a banker, sagði hann,  No no, I used to be,  sagði ég í gríni og brosti og hann brosti á móti og seldi mér fínan cappucino.   Þett var eina commnentið sem ég fékk á þjóðerni mitt í þá fimm daga sem ég dvaldi í Englandi.  Ég  semsagt var í Bournemouth frá fimmtudegi til mánudags og kom heim í nótt eftir frábærlega vel lukkaða ferð.  Ég  fylgdist ekkert mérð fréttum frá Íslandi þessa daga og  mikið var það gott að losna frá öllu tali um það erfiða ástand sem hér er.   Bjarni Harðarsson búinn að segja af sér þingmennsku fyrir persónuleg afglöp og það finnst mér ágætt og vonandi gefur það einhvern tón þó að ég efist um það. 

Ég  verð að segja að þjóðarstolt mitt óx mjög á þeirri ágætu ráðstefnu sem ég sótti í Bournemouth,  þegar hver bretinn á fætur öðrum kom á svið og sagði,  ef við bara gætum gert eins vel og íslendingar,  ef við næðum helmingnum af árangri Íslendinga !  Ég öfunda Íslendinga af því sem þeir eru að gera. Takiði Íslendinga ykkur til fyrirmyndar og sjáiði hvernig þeir vinna í þessum gríðarlega erfiðu aðstæðum sem þar eru.    Hér voru collegar okkar að vitna til þess frábæra árangurs sem við Herbalife dreifingaraðilar á Íslandi erum að ná í dreifingu á þessum frábæru vörum.   Í október s.l. jukum við söluna um 81% frá október á síðasta ári, já nánast tvöfölduðum söluna á milli ára og þetta getur orðið öðrum hvatning og fyrirmynd af því hvað hægt er að gera þegar fólk stillir saman strengina og fer útí lífið með gott viðhorf og jákvæðni að leiðarljósi.

Það er gríðarlega mikið að gera hjá okkur í Herbalife og okkur vantar miklu fleiri í liðið  og  hér getið þið sótt um upplýsingar um hvað er að gerast,   

http://www.heilsufrettir.is/distrApply.php?distributor=sonata

 

Hafið það annars eins og þið viljið.. 

Magnús G.  Whistling

 


Það eru ávallt þrjár hliðar á hverju máli

mín hlið, þín hlið og Rétta hliðin, sagði mæt kona í athugasemd á bloggsíðunni minni fyrr í dag.  Hún hefur þetta eftir ömmu sinni og sjálfsagt hefur amma hennar Huldu lært þetta af reynslunni í gegnum árin.  Þessi staðhæfing eða máltæki eða hvað við köllum það, á sérstaklega vel við þessa dagana, þegar ásakanir ganga um þjóðfélagið þvert og endilangt.   Við getum hins vegar ekki stöðvað alla umræðu og sett alla hluti í rannsóknarrétt til að finna réttu hliðina á hverju máli, stundum er hún alls ekki augljós og aðgengileg fyrir alla, sérstaklega ekki þessa dagana, þegar mörgu virðist vera leynt eða reynt að leyna réttu hliðinni á málunum.  Einhverjir verða að hafa kjark til að segja sína skoðun og stundum verða menn að éta eitthvað ofan í sig og sætta sig við annað sér rétta hliðin á málinu.  

Ég er hinsvegar alveg sammála því að það er gott að hafa þessa reglu í hávegum þegar maður setur skoðanir sínar á blað og gæta þess að meiða ekki fólk og gera því ekki upp verk eða skoðanir.  

Ég lærði ungur af einhverjum vitrum manni sem ég átti samleið með að; "Það er tvennt sem ekki er aftur tekið Magnús minn,  það eru töluð orð og glataður meydómur"  svo satt. 

Annars  er ég á leiðinni til Englands í fyrramálið, í löngu ákveðna ferð til Bournemouth á suðurströndinni að sækja mér upplýsingar og andlega orku fyrir veturinn.  Ég verð nú eiginlega að segja að ég er hálffeginn að eiga þess kost að komast aðeins í burtu í nokkra daga og komast í  annað umhverfi.   Ég er hinsvegar alveg ákveðinn í því að villa ekki á mér heimildir í Englandi og ef einhver svekktur ICE SAVE innistæðueigandi vill berja mig fyrir að vera Íslendingur þá lofa ég að hann þarf að hafa fyrir því, meiru get ég ekki lofað.   Annars hef ég engar áhyggjur af bretum sem eru eitthvert allra skemmtilegasta og besta fólk sem ég hef kynnst um dagana og mér finnst London alltaf vera mitt annað heimili á eftir Kópavogi,  þannig eru minar góðu minningar frá tímanum sem ég bjó í London.

Ég hef auðvitað verið svolítið upptekinn af ástandinu í landinu okkar og fylgst með fréttum af fremsta megni og m.a. var ég að horfa á Markaðinn á laugardaginn og  sonur minn 10 ára lá í sófanum og horfði á þáttinn um stund og sagði svo;

"Pabbi,  viltu slökkva á þessum þætti, ég þoli ekki að hlusta á þessa menn tala um þessa kreppu.  Pabbi afhverju hættum við ekki bara að tala um þessa kreppu og förum að tala um eitthvað annað í fréttunum.  Ég er viss um að kreppan bara fer ef við hættum að tala um hana, slökktu núna".

Þessi orð sonar míns vöktu mig til umhugsunar um hversu huglægt þetta ástand er og um hvaða viðhorf við höfum til lifsins og hvernig við sjáum hlutina fyrir okkur.  Þetta er auðvitað spurning um hvort við sjáum glasið sem hálffullt eða sem hálftómt.

Ég er að reyna að taka mig í gegn og tala minna um kreppuna og sjá glasið hálffullt og hafa jákvætt viðhorf til lífsins og ástandsins í landinu og ég hef eiginlega ákveðið að gera það sem ég get til að sjá mér farborða og nýta þau tækifæri sem ég hef og láta ekki umræðuna eða ástandið trufla mig. 

Ég er mjög þakklátur Huldu fyrir að vekja mig til umhugsunar um hliðarnar þrjár og Hákoni fyrir að vekja athygli á þessu niðurdrepandi krepputali allar stundir, sem maður sogast inní ef maður gætir ekki að sér...

Hafið það eins og þið viljið og drekkið af hálffullum glösum sem eru allt í kring.

Magnús G..Whistling

Ægisíðan 2008 003 


Vonbrigði

Og ég sem var farinn að halda að Þorgerður Katrín gæti orðið næsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins og satt best að segja þá leist mér bara vel á það.  Ef eitthvað er hæft í þessum sögum um tengsl hennar við hugsanlegar afskrftir krafna Kaupþings vegna kaupa á hlutafé þeirra hjóna í bankanum, þá tel ég nú að hennar glæsta pólitíska ferli sé lokið.   Ég  er  henni alveg sammála um að það verður allt að komast uppá borðið  í þessum efnum og við verðum að hreinsa allt út. 

 


mbl.is Menntamálaráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt hjá ykkur

Frábær byrjun  hjá Breiðabliki í körfunni þetta árið,  vonandi halda þeir áfram á sömu braut..

Áfram Breiðablik alltaf..


mbl.is Þriðji sigur Blika staðreynd en ÍR-ingar enn án stiga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband