Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Mér líst vel á nýjan formann LÍÚ

Til hamingju með formennskuna Adolf.  Ég er ekki í vafa um að þetta er góður kostur fyrir útvegsmenn. 
mbl.is Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum drullugóðar í fótbolta

sagði Hólmfríður Magnúsdóttir og ég er henni svo sannarlega sammála.  Til hamingju stelpur með með þennan frábæra árangur að komast í lokakeppni EM.  Það var virkilega gaman að horfa á leikinn og sjá baráttuandann og ákveðnina í öllu liðinu,  það komst ekkert annað að en sigur og hann var sannfærandi.   Ég held að þetta sé það sem fyrir okkur liggur sem þjóð,  að berjast saman að því að komast áfram í Evrópu og þá innan ESB.  Það er að verða mér ljósara með degi hverjum að við eigum enga möguleika sem eitthvert eyríki úti í miðju Norður Atlantshafi.  Ég  er ekki mjög hrifinn að hugmyndum um að taka upp norsku krónuna og slá þar með á frest hugsanlegri upptöku evru hér á landi. Fráfarandi formaður LÍÚ mælti gegn inngöngu í Evrópusambandið og sagði það ekki henta okkur sem þjóð af því að við myndum missa stjórn á auðlindum okkar.  Hann er væntanlega bara að tala um fiskinn í  sjónum.  Ég sé nú ekki betur en að þjóðin sé fyrir löngu búin að missa stjórn á þeim og þeir sem hafa þær voru  búnir að belgja svo út verið á kvótanum að að sjávarútvegurinn er veðsettur til andskotans  og á enga framtíð fyrir sér án stórfelldrar niðurfellingar á skuldum og algerrar endurskipulagningar. Rétturinn til að nýta veiðheimilirnar í því formi sem hann er í dag er úreltur og nýtt form verður að koma til.   Hvað ætli kvótakíló kosti í dag ?  því getur enginn svarað af því að það er enginn markaður og þar með er þetta væntanlega verðlaust,  því ef enginn vill kaupa þá er ekkert verð. 

Það þarf kjark núna til að skera upp allt kerfið, fjármálakerfið okkar hrundi og fór í sjálfskipaðan uppskurð með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina og ég óttast að við eigum eftir að sjá þvílikan óþverra í tengslum við hrunið að við höfum ekki einu sinni ímyndunarafl til að ímynda okkur allan sóðaskapinn sem var í gangi.  Ég vona bara að þeir sem eiga að bera ábyrgð, verði dregnir til ábyrgðar og látnir axla hana.   Þjóðin hefur núþegar yfirtekið byrðarnar sem hlutust af ævintýrunum og græðginni sem réði ríkjum. 

Ég  held ég setji hér inn spakmæli sem ég fékk í gær, af því að mér finnst það eiga svo vel við þessa dagana þegar allir kenna öðrum um ástandið;

- Manni getur misheppnast mörgum sinnum, en hann er ekki misheppnaður fyrr en hann fer að kenna öðrum um -

 Áfram Ísland .

Takk fyrir stelpur fyrir að gera mig að stoltum Íslendingi í kvöld

og hafið það eins og þið viljið

Magnús G. Whistling

482227A

 

Þetta er náttúrulega bara kómískt.

Í morgun tilkynnir Seðlabankinn um 50% hækkun stýrivaxta úr 12 í 18% og allir vita að þetta mun hafa gríðarlega neikvæð áhrif á heimilin og atvinnulífið,  þetta tvennt sem stjórnmálamenn hafa hver í kapp við annan verið að halda fram undanfarna daga og vikur að verður að verja. Menn kenna IMF um þetta og segja að þeir krefjist þessara vaxtahækkana.  Hafa þeir einhvern hag af því að knésetja íslenskar fjölskyldur til að viðhalda handónýtri mynt sem krónan er, því allt er þetta víst gert til að bjarga henni.   Það er greinilegt að það er búið að taka hagstjórnina af ríkisstjórninni og Seðlabankanum og þeir eru orðnir að afgreiðslustofnun fyrir IMF. 

Það er nokkuð ljóst að gríðarleg eignaupptaka á sér stað þessar vikurnar, fólk er að horfa á eigur sínar falla í  verði og skuldbindingarnar hækka og eigið fé fólks rýrnar með hverjum deginum sem líður.   Ég  er löngu hættur að spá í Efnahagsreikninginn hjá mér,  það þíðir ekkert að vera að velta sér uppúr honum og ergja sig á því hvernig hann stendur,  það eina sem skiptir máli þessa dagana er reksturinn,  kemst maður í gegnum næstu daga og vikur, á maður fyrir mat og tekst manni að standa skil að skuldbindingum sínum.   Ég  sendi fyrirspurn á bankann minn um frestun afborgana og vaxta á húsnæðislánunum mínum og fékk neitun,  þrátt fyrir að ég hef alltaf verið í skilum og ekki átt í neinum vandræðum við bankann.

Næstu vikur og mánuðir verða örugglega helvíti töff  hjá okkur og næstu ár erfið um margt,  en það má ekki gefast upp,  við verðum að taka á því og keyra okkur  uppúr þessu ógeði öllu saman og tryggja að börnin okkar eigi góða framtíð í þessu landi og að regluverkið verði með þeim hætti að svona hlutir geti aldrei aftur komið upp. 

Áfram Ísland og höfum hugfast orðin í ljóðinu  "Ísland er land þitt, því aldrei mátt gleyma"

Hafið það eins og þið viljið

Magnús G. Angry

Þjóðfáninn


Góð helgi að baki..

Ég átti ótrúlega rólega helgi núna,  Hákon minn sem átti að vera hjá mér kom aðeins á föstudaginn en flaug svo norður á Akureyri í gær í afmæli frænda síns og kom ekki fyrr en kvöld aftur.  Ég tók ákvörðun um að slappa vel af þessa helgi og gerði það og endaði svo á því að við Sigrún Ásta buðum Helgu, Guðjóni Má og Steinari í mat í kvöld.  Við elduðum villigæs og kjúkling í aðalrétt með sætum kartöflum og Hvítlauksristaða humarhala í forrétt.  Skemmtilegt að koma svona saman endrum og sinnum, ekki síst eins og tímarnir eru núna,  þá er enn mikilvægara að treysta fjölskyldu og vinabönd. 

Annars er ég nákvæmlega sömu skoðunar og ég var fyrir helgi á ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna á ástandinu og það hefur ekkert nýtt komið fram sem gerir það að verkum að ég hafi fengið ástæðu til að skipta um skoðun nema síður sé.  Reyndar botna ég ekkert í þessari fylgisaukningu  hjá  SF og VG  því þeir er auðvitað alveg jafnábyrgir þó að þeir hafi verið í stjórnarandstöðu á síðustu árum.  Ég ætla að vona að fólkið sem er í flokkunum og hefur einhverja ábyrgðartilfinningu,  taki sig saman um að skipta út þessu fólki og setji annað fólk í staðinn í forystuna til að endurheimta traust á stjórnmálaflokkana og stjórnmálamenn almennt, sem þykja því miður ekki merkilegir pappírar þessa dagana.  Í lýðræðisþjóðfélagi verða stjórnmálamenn að njóta trausts almennings annars endar þetta bara í byltingu. 

Ég vona að það fari að komast á eðlileg samskipti á milli okkar og nágranna okkar og ekki síst að það komist á eðlilegar gjaldeyrisyfirfærslur á milli landa áður en allt fer hér í kalda kol í atvinnulífinu.  

Annars fannst mér viðtalið við Guðmund Magnússon í Silfri Egils ansi merkilegt og mjög margt í hans málflutningi sem mér hugnaðist ágætlega m.a. það sem hann sagði um auðlindir þjóðarinnar og hvernig umræðan um þjóðareign hefur þróast á undanförnum árum.  Við verðum að koma þessum auðlindamálum á hreint í þessari atrennu og endurskoða kvótakerfin bæði í sjávarútvegi og landbúnaði,  annars verður enginn friður í þessu landi til lengri tíma.

Hafið það eins og þið viljið

Magnús G. Whistling

FÝKUR YFIR HÆÐIR 


Nú skil ég afhverju

Árni Matt var svona stressaður í sjónvarpsviðtalinu um daginn þegar hann var að lýsa því sem hann sagði við Mr. Darling.   Viðbrögð og  svör Darling daginn eftir samtalið þ. 8. október þurfa ekki að koma á óvart, því Darling endurtók bara það sem Árni sagði honum,  að við myndum sennilega ekki borga, af því að við ættum ekki peninga fyrir þessu öllu, sem var alveg rétt, en stundum má satt kyrrt liggja og sennilega hefur nú verið logið af minna tilefni í pólitík en þessu.  Svo koma upplýsingar um fund í London 2. september með Björgvini viðskiptaráðherra þar sem hann segir breskum stjórnvöldum að allt sé í himnalagi í Landsbankanum og nokkrum dögum síðar er hann greiðsluþrota og kröfur breskra innistæðueigenda  nema mörg hundruð milljörðum íslenskra króna. Milljörðum sem Íslenska ríkið er í ábyrgð fyrir,  Sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað frekar, hefði nú hinn litriki Ólafur Ragnar í dagvaktinni sagt. 

Menn hafa axlað ábyrgð af minna tilefni en þessu og ég vona að þessir ráðherrar tveir og fleiri sjái sóma sinn í því að biðja þjóðina afsökunar þegar þeir segja af sér embætti.  Ég vona að þeir öðlist kjark til þess fyrr en seinna. 

Hvað kemur í ljós á morgun ?

Ég vona að enginn verði fyrir skaða í óveðrinu sem nú gengur yfir landið..

Hafið það eins og þið viljið Whistling

 


Afhverju er svona erfitt að

vera atvinnustjórnmálamaður á Íslandi og geta ekki horfst í augu við staðreyndir sem eru núþegar uppi á borðinu.  Ég hef lengi borið ansi mikið traust til Geirs Haarde og fundist hann að mörgu leyti vera nokkuð gegnheill  og  sjálfsagt er hann það að flestu leyti,  en ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum í gærkvöldi þegar ég sá hann í Kastljósinu.  Geir bara getur  alls  ekki séð að stjórnvöld á Íslandi beri nokkra ábyrgð á stöðunni, þetta sé allt meira og minna utanaðkomandi og EES samningnum að kenna, (væntanlega Jóni Baldvin) sem barðist fyrir honum.  Afhverju er ekki sama staða í öðrum EES löndum ?   Geir villa axla þá ábyrgð að koma þjóðinni útúr þessari stöðu og fá frið til þess,  afhverju vill hann ekki bara leyfa okkur að tjá okkur um það hvort við treystum honum og samstarfsmönnum hans til þess,  hann mun væntanlega líka vera ábyrgðarlaus ef honum mistekst og þetta verður  Brown eða Pútin eða Stoltenberg eða Guðna Ágústssyni að kenna, bara einhverjum öðrum en honum og ríkisstjórninni.   Ég  er ekki að hvetja til þess að ríkisstjórnin fari frá í dag,  en um leið og einhver hefur komið þjóðinni til bjargar, þá á þessi rískisstjórn að fara frá og það á að boða til nýrra kosninga og gefa þjóðinni tækifæri til að velja sér ný fulltrúa með nýtt umboð til að stjórna landinu,  núverandi þingmenn, nánast allir í stjórn og stjórnarandstöðu hafa brugðist þjóðinni og ef þjóðin vill gefa þeim nýtt umboð þá fær þjóðin það sem hún á skilið og árangurinn verður væntanlega í samræmi við það, við skulum ekki gleyma því að sunnlendingar kusu Árna Johnsen aftur á þing þrátt fyrir hans fyrri afrek og algert iðrunarleysi, en hann er jú sjálfstæðismaður eins og rúmur þriðjungur þjóðarinnar.  Kannski eigum við bara ekki betra skilið, þegar við tökum flokkshollustu svona gersamlega fram yfir þær persónur sem í framboði eru.  Mér hefur reyndar stundum dottið í hug að það væri hægt að koma góðum Hesti á þing ef hann væri í fyrsta sæti í réttu kjördæmi og væri á réttum lista,  slík er flokkshollustan. 

Ef það er rétt sem fram kemur um stöðu sjávarútvegsins að hann skuldi fjórum sinnum meira en árstekjurnar,  er  hann þá ekki í nákvæmlega sömu stöðu og  bankarnir,  kominn að fótum fram og uppstokkun er nauðsynleg,  innkalla kvótann, yfirtaka skuldirnar og byrja uppá nýtt.  Einar Kristinn kallar það setja útveginn uppá rönd ef talað er um breytingar,  ef þetta er rétt þá fer útvegurinn ekki uppá rönd hann er á hvolfi eins og afvelta rolla og á sér enga framtíð án björgunaraðgerða.  Mér skilst að sama sagan sé uppí á teningnum í landbúnaði, helmingur bænda a.m.k. veit ekki hvort þeir eru að koma eða fara,  sérstaklega þeir sem hafa fjárfest í kvótum og nýjum búnaði.

Ég  legg til að við fáum Gaua Þórðar, hann er örugglega á lausu,  til að setja Alþingismenninna alla í kalt bað (Ís bað) og ekki síst hausinn á þeim svo þeir geti farið að takast á við málin af ábyrgð og með kaldan hausinn,  hætta þessum eilífa flótta frá raunveruleikanum. 

Það sem við höfum tapað er TRAUSTIР og ég er nokkuð viss um að við þurfum nýtt fólk til að byggja upp traust aftur og ef það tekst þá er framtíðin björt annars ekki ..

Ég  set aftur inn hér smá texta um traust, því góð vísa er aldrei of oft kveðin..

Hafið það annars eins og þið viljið i snjónum..

Magnús G. Cool

Traust


Enn og aftur til hamingju

Það eftirtektarvert nú í öllu þessu umróti hjá okkur að landslið matreiðslumeistara  skuli ná svona góðum fókus á erlendri grundu.  Mér skilst að þetta sé best árangur sem náðst hefur hjá Landsliðinu í sögunni og látum þetta verða okkur hvatningu til frekari dáða.  Innilegar hamingjuóskir. Cool
mbl.is Kokkalandsliðið sigursælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær árangur

Til hamingju með þennan stórkostlega árangur.


mbl.is Kokkalandsliðið fékk gull
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að hjá lögreglunni ?

Að  senda 21 eins árs lögregluþjón í útkall án þess að hann sé með kylfu og önnur hjálpartæki,  finnst mér eiginlega segja allt sem segja þarf um þá sem bera ábyrgð á þessum málaflokki.  Að gefa þær skýringar að hann sé ekki búinn að fara námskeið í notkun tækjanna, hvað er að.  Var hann búinn að fara á námskeið í að láta berja sig til óbóta ?    Skammist ykkar  allir,  varðstjóri, lögreglustjóri, ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðherra,  fyrir að koma ungum manni í svona aðstæður.  Svo ætlið þið að rannsaka ykkur sjálfir, hvað fór úrskeiðis.   Ég  hef verið og er talsmaður þess að við berum virðingu fyrir lögreglunni og ég vil að löggæslan fá þær heimildir og tæki sem nauðsynleg eru í nútímaþjóðfélagi til að takast á við það sem á vegi hennar verður.  Ég hef áhyggjur af löggæslunni í landinu hvort sem er á landi eða sjó.   Það má ekki keyra um á bílunum vegna bensínkostnaðar og Varðskipin liggja bundin við bryggju eða hanga á krók einhversstaðar af því að það er ekki til fyrir olíu, að sagt er. 

Vondandi fara menn að vakna til vitundar að löggæsla er nauðsynleg og í því ástandi sem framundan er verður enn meiri þörf á alvöru löggæslu.

Ég vona að þetta unga fólk sem varð fyrir þessari árás nái sér fljótt og vel.

Magnús G.  Shocking

 

vardskip_framan_stor

 P.S. ég velti fyrir mér hvort þessi nýi Þór fari einhverntíma á sjó eftir að hann kemur heim.

 


Á strandstað.

Ég held að vissulega sé það rétt samlíking hjá Jóni Baldvin að við erum með Þjóðarskútuna á strandstað og það má engan tíma missa í björunaraðgerðunum sem við stöndum í.  Það er ljóst að einhverjir eru hlaupnir frá og ætla ekki að hjálpa til við bjögunaraðgerðirnar og enn aðrir þvælast fyrir á strandstaðnum.   Gammarnir sveima yfir og bíða að eitthvað falli fyrir borð  eða verði jafnvel hent fyrir borð (sameiginlegt sjótjón)  til að bjarga því sem bjargað verður.  Það  er auðvitað  alltaf þannig að það er svo gott að vita allt fyrirfram,  eftirá,  og  nóg  er af slíkum #gáfnaljósum núna" sem láta ljós sitt skína og Jón Baldvin hélt því fram að ef þjóðin hefði fylgt honum að málum 1995 þá værum við með allt í stakasta lagi í dag.  Sjálfsagt er eitthvað til í þessu og kannski hefðu bankarnir lifað eða verið orðnir hluti af öðrum bönkum (erlendum) hver veit, en staðreyndin er bara sú að fólkið vildi ekki Jón Baldvin 1995 og valdi sér aðra til að stjórna landinu í sínu umboði og þeir brugðust traustinu.  Ég  er  hinsvegar alveg sammála Jóni Baldvini um eitt  og það er að við getum ekki staðið ein í nútímasamfélagi þjóðanna og verðum að fara inní ES  hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Við getum ekki lengur búið við þær leikreglur sem hafa verið settar  og  eru góðar fyrir suma en ekki aðra.  Ég  treysti ekki núverandi stjórnvöldum til að setja nýjar leikreglur fyrir þjóðina,  hagsmunatenslin eru svo mikil að þær reglur verða aldrei sanngjarnar.  Það er ekkert traust eftir til staðar,  þeir sem þurftu svo  mikið á trausti að halda hafa glatað því,  eins og Jón Baldvin gerði 1995, kannski því miður. 

Þjóðin og allir þegnar þessa lands,  verða nú að líta innávið og skoða sjálfa sig og spyrja sjálfa sig af því hvort okkur sé treystandi sem einstaklingum,  ef við höfum brugðist þá verðum við að kingja því og sennilega verðum við langflest að kingja einhverjum bitum, misstórum eins og gengur.  En skítt með það, gerum það bara og endurreisum traustið okkar á milli og látum af allri þessari einstaklings og gróðahyggju sem hefur nú beðið skipbrot.  Tökum samfélagslega ábyrgð og fyrst og fremst þá verðum við að endurvekja  traustið í samskiptum á milli manna,  annars náum við okkur aldrei á strik.   Látum Nýja Ísland byggjast á trausti.

Mig langar að setja inn úrdrátt úr nýjustu bók Stephen M.R. Covey sem fjallar um Traust og mikilvægi þess. 

Traust

 Hafið það eins og þið viljið.

Magnús G. Whistling

 

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband