Færsluflokkur: Bloggar
Hvað er að hjá lögreglunni ?
19.10.2008 | 21:39
Að senda 21 eins árs lögregluþjón í útkall án þess að hann sé með kylfu og önnur hjálpartæki, finnst mér eiginlega segja allt sem segja þarf um þá sem bera ábyrgð á þessum málaflokki. Að gefa þær skýringar að hann sé ekki búinn að fara námskeið í notkun tækjanna, hvað er að. Var hann búinn að fara á námskeið í að láta berja sig til óbóta ? Skammist ykkar allir, varðstjóri, lögreglustjóri, ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðherra, fyrir að koma ungum manni í svona aðstæður. Svo ætlið þið að rannsaka ykkur sjálfir, hvað fór úrskeiðis. Ég hef verið og er talsmaður þess að við berum virðingu fyrir lögreglunni og ég vil að löggæslan fá þær heimildir og tæki sem nauðsynleg eru í nútímaþjóðfélagi til að takast á við það sem á vegi hennar verður. Ég hef áhyggjur af löggæslunni í landinu hvort sem er á landi eða sjó. Það má ekki keyra um á bílunum vegna bensínkostnaðar og Varðskipin liggja bundin við bryggju eða hanga á krók einhversstaðar af því að það er ekki til fyrir olíu, að sagt er.
Vondandi fara menn að vakna til vitundar að löggæsla er nauðsynleg og í því ástandi sem framundan er verður enn meiri þörf á alvöru löggæslu.
Ég vona að þetta unga fólk sem varð fyrir þessari árás nái sér fljótt og vel.
Magnús G.
P.S. ég velti fyrir mér hvort þessi nýi Þór fari einhverntíma á sjó eftir að hann kemur heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á strandstað.
19.10.2008 | 15:26
Ég held að vissulega sé það rétt samlíking hjá Jóni Baldvin að við erum með Þjóðarskútuna á strandstað og það má engan tíma missa í björunaraðgerðunum sem við stöndum í. Það er ljóst að einhverjir eru hlaupnir frá og ætla ekki að hjálpa til við bjögunaraðgerðirnar og enn aðrir þvælast fyrir á strandstaðnum. Gammarnir sveima yfir og bíða að eitthvað falli fyrir borð eða verði jafnvel hent fyrir borð (sameiginlegt sjótjón) til að bjarga því sem bjargað verður. Það er auðvitað alltaf þannig að það er svo gott að vita allt fyrirfram, eftirá, og nóg er af slíkum #gáfnaljósum núna" sem láta ljós sitt skína og Jón Baldvin hélt því fram að ef þjóðin hefði fylgt honum að málum 1995 þá værum við með allt í stakasta lagi í dag. Sjálfsagt er eitthvað til í þessu og kannski hefðu bankarnir lifað eða verið orðnir hluti af öðrum bönkum (erlendum) hver veit, en staðreyndin er bara sú að fólkið vildi ekki Jón Baldvin 1995 og valdi sér aðra til að stjórna landinu í sínu umboði og þeir brugðust traustinu. Ég er hinsvegar alveg sammála Jóni Baldvini um eitt og það er að við getum ekki staðið ein í nútímasamfélagi þjóðanna og verðum að fara inní ES hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við getum ekki lengur búið við þær leikreglur sem hafa verið settar og eru góðar fyrir suma en ekki aðra. Ég treysti ekki núverandi stjórnvöldum til að setja nýjar leikreglur fyrir þjóðina, hagsmunatenslin eru svo mikil að þær reglur verða aldrei sanngjarnar. Það er ekkert traust eftir til staðar, þeir sem þurftu svo mikið á trausti að halda hafa glatað því, eins og Jón Baldvin gerði 1995, kannski því miður.
Þjóðin og allir þegnar þessa lands, verða nú að líta innávið og skoða sjálfa sig og spyrja sjálfa sig af því hvort okkur sé treystandi sem einstaklingum, ef við höfum brugðist þá verðum við að kingja því og sennilega verðum við langflest að kingja einhverjum bitum, misstórum eins og gengur. En skítt með það, gerum það bara og endurreisum traustið okkar á milli og látum af allri þessari einstaklings og gróðahyggju sem hefur nú beðið skipbrot. Tökum samfélagslega ábyrgð og fyrst og fremst þá verðum við að endurvekja traustið í samskiptum á milli manna, annars náum við okkur aldrei á strik. Látum Nýja Ísland byggjast á trausti.
Mig langar að setja inn úrdrátt úr nýjustu bók Stephen M.R. Covey sem fjallar um Traust og mikilvægi þess.
Hafið það eins og þið viljið.
Magnús G.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leyfum rykinu að setjast..
17.10.2008 | 00:26
Nú þegar þessum hamförum fer að ljúka þá koma auðvitað eftirskjálftarnir og ég hef heyrt tölur um að allt að 50-60 % af íslensku atvinnulífi verði gjaldþrota og stöðvist á næstu mánuðum með tilheyrandi vandræðum fyrir okkur sem landið byggjum. Ég ætla svo sannarlega að vona að þetta sé allt saman tóm vitleysa eins og við flest héldum með bankana fram í lok september s.l.
Ég hinsvegar las ansi góða grein í dag eftir Jóhann J. Ólafsson sem hann skrifaði í Fréttablaðið og þar lýsir hann aðdraganda og ástandinu býsna vel, hvet alla til að lesa þessa grein. ´
Ég er hrifinn af framkvæmd Hermanns hjá N1 að nota loksins þjóðfánann sem sameiningartákn og ég legg nú bara til að lögum um þjóðfánann verði breytt og notkun hans leyfð við fleiri tilefni en nú er gert, en þó þannig að virðingar við fánann verði auðvitað gætt áfram.
Á tímum eins og þeim sem nú eru að ganga í garð er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni og næra sig vel og rækta líkama og sál. Ég var svo heppinn fyrir rúmum 6 árum að fá á öxlina engil sem hvíslaði í eyrað á mér að ég yrði að breyta til, áframhaldandi lífsstíll yrði mér að tjóni langt fyrir aldur fram ef ég aðhefðist ekkert. Ég hlustaði og byrjaði hægt og rólega að byggja mig upp, fyrst líkamlega, tók svo næringuna fyrir og fór að nota fæðurbótarefni og próteindrykki frá Herbalife. Svo fór ég að rækta sálartetrið betur og viti menn, ég er miklu betur á mig kominn núna en ég var fyrir 15 árum. Mér líður í raun alveg frábærlega og það er svo feikilega gott á tímum sem þessum að vita að maður er uppá sitt besta, við góða heilsu og það muna auðvelda manni að takast á við framtíðina.
Ef þið viljið góða og ódýra næringu, stútfulla af vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum, þá smellið að krækjuna hér fyrir neðan og ég mun glaður leiðbeina ykkur.
Skyndibiti fyrir gáfað fólk;
Hafið það eins og þið viljið
Magnús G.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær sigur á Laugardalsvelli í kvöld.
15.10.2008 | 23:21
Það var skemmtilegt að vinna landsleikinn í kvöld, þó að fótboltinn hafi kannski ekki verið mjög fallegur sem leikinn var, en það skiptir bara engu máli þegar við vinnum leikina. Það var gott að fá þennan sigur inní umræðununa og gefur okkur orku og eitthvað að gleðjast yfir. Ég fór svo beint í Kórinn eftir leik og lék mér með nokkrum öðrum í klukkutíma í fótbolta. Neita þvi ekki að það tekur á að hlaupa, tækla og vera tæklaður í klukkutíma en mikið helvíti er þetta gaman. Okkur vantar ennþá nokkra til að fylla tímann, endilega látið mig vita ef þið viljið koma kl 2100 á miðvikudögum..
Takk strákar í landsliðinu fyrir þennan sigur.
Hafið það eins og þið viljið
Magnús G.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tók mér hálfgert fréttafrí um helgina
14.10.2008 | 14:50
Ég var að verða svo deprimeraður og reiður í lok síðustu viku að ég tók mér eiginlega frí frá fréttum að mestu, þó ég hafi séð Egil Helgason missa sig í Silfrinu, ótrúlegt að horfa á jafn reyndan mann fara svona með gullið tækifæri. Mér fannst reyndar þetta mikið auglýsta viðtal fara fyrir ofan garð og neðan vegna stjórnleysis, stjórnandans sem greinilega var mjög reiður. Það var fínt að kúpla sig aðeins út og reyna að ná áttum í öllum þessum holskeflum sem á okkur dynja. Ég er enn sannfærðari en áður að nú verðum við að nýta tækifærið til að gefa uppá nýtt og koma á vitrænum leikreglum í landinu. Ég þurfti á smá læknishjálp að halda í síðustu viku og datt inná einkarekna heilsugæslustöð í Kópavogi og ætlaði að fá tekinn úr mér saum. Mér var sagt að það væri hægt fyrir 2.200 kall af því að það væri læknir sem myndi taka sauminn og að ég þyrfti að bíða í ca. klukkutíma erftir þjónustunni. Ég nennti ekki að bíða og sennilega rukkar líka læknirinn fimmfalt þetta verð svo að ég ákvað að taka samfélagslega "kreppuábyrgð" og fá vinkonu mína til að æfa saumatöku úr olnboga. Við hittumst á almenningssalerni á Grand Hóteli þar sem hún mætti með smáskæri og plokkara og saumarnir hurfu á 2 mínútum.
Ég byrjaði svo aftur í "ræktinni" í morgun í Nautilus í Versölum og ætla að vera duglegur með badmintoninu og fótboltanum og göngutúrunum mínum. Markmiðið er að ná þvi að geta skokkað nokkuð létt eina 10-20 km og synt 1500 - 2000 metra skriðsund svo ég geti tekið þátt í þríþraut á næsta ári án þess að ganga alveg frá mér..
Smelli inn mynd af samstöðu í kreppunni.
Hafið það eins og þið viljið
Magnús G.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nýja Ísland
10.10.2008 | 15:11
Hvernig verður nýja Ísland ? Það verður nákvæmlega eins og við viljum hafa það sjálf. Við erum svo heppin að hafa kosningarétt og við getum valið okkur fólk til forystu. Ég hef verið stuðningsmaður flestra ríkisstjórna sem setið hafa á Íslandi frá því að fór að spá í pólitík og ég meira að segja batt vonir við þá sem nú situr. Það fer um mig hrollur þegar ég hugsa um aðgerðarleysi þessara ríkisstjórna gagnvart aðdragandanum að þeirri stöðu sem nú er komin upp. Þegar ég tala um ríkisstjórnir í þessum pistli þá á ég líka við stofnanir ríkisins, eins og Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit, sem hefur sýnt sig að eru handónýtar stofnanir, svo ekki sé nú talað um blessaðan Seðalabankann sem rúinn er öllu trausti og menn brosa bara útí annað þegar hann er nefndur, allir nema Geir Haarde.
Ríkisstjórnir, stjórnarandstaða og Forsetinn sjálfur, bera öll mikla ábyrgð á því að hafa leyft 10 - 20 mönnum, sem hefur verið hampað um allt, að skuldsetja þjóðina með þeim hætti sem uppá yfirborðið er að koma. Ég ætla að vona að þeir sem hafa leyft þessu að gerast, með bundið fyrir augun, skammist sín og hafi hljótt um sig þegar IMF verður búinn að taka yfir hér á næstu dögum. Það er engin önnur leið fær en aðstoð frá IMF og satt best að segja hugnast mér það bara ágætlega. Þeir munu setja skýrar reglur og það er það sem við þurfum núna skýrar reglur.
Almenningur getur tekið höndum saman og komið sér upp nokkurskonar Samvinnufélögum til að sjá um grunnþætti í þjónustu, eins og verslun, flutningum, tryggingum, samgöngum, sjávarútvegi, bankastarfssemi ofl. Látum það aldrei, aldrei aftur gerast á Íslandi að hópur manna sem kemst fyrir í einum Econline nái hér öllum verðmætum þjóðarinnar á sitt vald og geti kúgað þjóðina með þeim hætti sem við erum að upplifa þessa dagana. Þetta er ekkert annað hrein og klár kúgun og andlegt ofbeldi sem þjóðin er að ganga í gegnum.
Ég er tilbúinn til að fara í stríð til að varðveita hagsmuni þessarar þjóðar til framtíðar og við verðum að skipta út öllu settinu, líka Steingrími Joð og Guðna Ágústssyni, ekki bara núverandi stjórnarflokkum heldur líka stjórnarandstöðunni, hún hefur brugðist.
Nú er tækifærið til að stokka allt upp og gefa uppá nýtt, auðlindir þjóðarinnar eiga að vera þjóðareign ekki einkaeign einhverra nokkurra einstaklinga sem eru búnir að veðsetja allt sem hægt er að veðsetja margfalt. Við eigum ekki að hafa alla smásöluverslun og önnur viðskipti í höndum öfrárra aðila sem hafa okkur að fíflum og skammta sér og okkur lífsafkomu, þetta var systemið fyrir 100 árum, hendum því aftur eins og við gerðum þá og slítum af okkur hlekkina.
Endurskipuleggjum Ísland núna, það verður ekki annað betra tækifæri til þess.
Hafið það eins og þið viljið og vonandi verður gott veður um helgina.
Magnús G.
Ég set inn merki samvinnuhreyfingarinnar til að minna okkur á gildi samvinnu og semheldni á komandi misserum og árum. Samvinnuhreyfingin átti stóran þátt í að þessi þjóð varð bjargálna á síðustu öld, við getum endurtekið það sem við kunnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hryðjuverkaógn !!!
9.10.2008 | 14:12
Að nýta sér lög um hryðjuverkaógn gagnvart smáþjóð norður í Atlanshafi, sem á tvö lítið Varðskip og hefur engan her nema þessa örfáu sérsveitarmenn lögreglunnar, er náttúrulega galið. Höfum þó eitt í huga að einu stríðin sem Breska Heimsveldið hefur opinberlega tapað eru Þorskastríðin og ég er einn af hinum stoltu hermönnum þjóðarinnar sem sigraði í því síðasta. Ég held að "vinir" okkar Bretar séu að nota okkur sem blóraböggul og senda skýr skilaboð til allra banka í Bretlandi um að haga sér í samræmi við þeirra vilja, annars ......
Ég var að hlusta á Ágúst Ólaf núna rétt áðan á MBL.IS og þó ég sé nú ekki oft sammála þeim samfylkingarmönnum, þá var ég álgjörlega sammála honum, við verðum að skipta um stjórn og stjórnendur í Seðlabankann í dag og það hlýtur að verða efni blaðamannafundar á eftir að tilkynna það. Ég held að gáleysislegt tal DO í Kastljósinu í vikunni hafi haft miklu meiri áhrif en okkur grunaði og nú er kominn tími til að gefa þjóðinni langþráða hvíld frá honum. Við verðum að byggja Nýja Ísland upp án þeirra sem bera ábyrgð á stöðunni sem nú er uppi. Það er flótti frá raunveruleikanum að skrifa þetta allt á einhverja alheimskreppu á fjármálamarkaði, vissulega kom hún skriðunni af stað.
Það hafa verið framin fjármálaleg hryðjuverk á Íslensku þjóðinni og við eigum að fara að dæmi Breta og nýta okkur fordæmi þeirra í ljósi hryðjuverka og frysta allar eigur þeirra sem ábyrgð bera á stöðu bankanna og þeirri staðreynd að menn hafa tekið þúsundir milljóna að láni í útlöndum með ábyrgð þjóðarinnar og geti svo bara hugsanlega hlaupið frá því.
Ég vil að lokum gera orð Winston Churchill að mínum;
Velgengni er geta okkar til að halda áfram ferðinni í gegnum ófremdarástand
Við megum ekki gefast upp og munum aldrei gefast upp, nú sýnum við Bretum og öllum öðrum úr hverju við Íslendingar erum gerð.
http://www.youtube.com/watch?v=shRLCaNreFE
Hafið það eins og þið viljið
Magnús G.
Bloggar | Breytt 10.10.2008 kl. 06:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á hvaða leið erum við ?
8.10.2008 | 13:18
Er staðan eins góð og Davíð lýsti eða var hann bara að lýsa óskhyggju sinni um "Draumalandið" eftir aðgerðirnar sem menn standa í núna. Glitnir kominn á framfæri ríkisins eins og Landsbankinn, Kaupþing í Bretlandi komið í greiðslustöðvun. Hvenær tekur ríkið Kaupþing yfir ?, er annað hægt ? Gengisskráningin minnir á ZIMBABWE, það veit enginn hver gengisvísitalan er og krónan sem öllu átti að bjarga í gær hefur neitt seðlabankann til að gefa gengið frjálst aftur, sem ég tel reyndar alveg ótrúlega aðgerð. Það er engin eðlileg verðmyndun á markaði og þess vegna á ekki að vera frjálst gengi þessa daga. Gordon Brown hótar okkur stríði í réttarsölum, danir grínast með okkur sem þjóð, (frekar ósmekklegt að mér finnst), því ekki höfum við gert annað af okkur en að kjósa yfir okkur mennina sem settu leikreglurnar. Leikreglur sem komið er í ljós að voru svo rúmar að nokkrir einstaklingar, sem sumir eru nú Ríkisstarfsmenn á launum hjá okkur, fóru þannig með að ekki bara við erum gjaldþrota heldur margar komandi kynslóðir. Það er auðvitað ekki auðvelt að senda út þau skilaboð að ríkið ætlar ekki að bakka upp þetta rugl allt, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki efni á því. Annars er atburðarásin svo hröð þessa dagana og angistin svo mikil um allan heim að best er að segja sem minnst og bíða næstu daga.
Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af sjálfum mér, en ég verð að játa að ég hef áhyggjur af framtíð barnanna minna og við hvaða kjör og leikreglur þau munu búa í framtíðinni.
Hvert við stefnum við ??
Hafið það eins og þið viljið.
Magnús G.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ef ég heyrði rétt
7.10.2008 | 23:37
í Kastljósinu í kvöld, þá sagði Davíð Oddsson, sem reyndar talaði eins og forsætisráðherra, að búið væri að taka ákvarðanir um að greiða ekki erlendar skuldir Landsbankans og Glitnis en ábyrgjast allar innlendar skuldbindingar þessara banka. Hvað með Kaupþing ? eiga þeir bara að róa sinn sjó eða verður sá ágæti banki yfirtekinn í næstu viku ? og allar erlendar skuldir hans meðhöndlaðar með sama hætti. Allt er þetta gert til að aðlaga bankakerfið, sem var náttúrulega alltof stórt fyrir þjóðarbúskapinn, að raunverulegri stærð hagkerfisins. Það sem mér hugnast best í þessu er sú staðreynd að Ríkið ætli ekki að rembast við eitthvað sem það getur ekki og láta ævintýramennskuna bitna á komandi kynslóðum, betra að gefast upp strax og játa sig sigraðan. Ég er alveg sammála DO um að sigurinn felst í uppgjöfinni og við verðum miklu fljótari að koma okkur á skrið aftur með þvi að gera þetta svona. Þetta er að horfast í augu við raunveruleikann.
Mikið rosalega er ég þakklátur fyrir að hafa viðskipatækifæri Herbalife þessa dagana, tækifæri sem veitir mér rétt til að starfa í næstum 70 þjóðlöndum, tækifæri sem getur fært fólki þær aukatekjur sem á vantar nú þegar svona gríðarleg kjaraskerðing hefur orðið og er fyrirsjáanleg.
Heiðarlegt tækifæri fyrir heiðarlegt fólk.
Ef þið viljið frekari upplýsingar þá smellið á krækjuna hér fyrir neðan og ég skal fræðar ykkur um þetta frábæra tækifæri .
http://www.heilsufrettir.is/distrApply.php?distributor=sonata
Það sem skiptir máli núna er að vera iðinn og fyrirhyggjusamur eins og maurarnir og ég set inn aðra krækju með vísdómi mauranna;
http://www.youtube.com/watch?v=rMGfyaLkwRQ&feature=related
Gangi ykkur öllum allt í haginn.. og hafið það eins og þið viljið..
Magnús G.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maður en nú bara eiginlega hálfdofinn
7.10.2008 | 18:37
á svona dögum. Ég bara sver það að ég átti alls ekki von á því að upplifa neitt því líkt og gengið hefur á undanfarna daga og vikur í Íslensku viðskiptalífi. Það er akkúrat ekki neitt sem maður getur gert í stöðunni annað en fara bara með æðruleysisbænina örlítið breytta og bæta bara inn kæruleysi í staðinn fyrir æðruleysi. Viðskiptabankinn minn til margra áratuga er bara horfinn í þeirri mynd sem hann var og enginn veit hvað við tekur, atburðarásin er svo hrikalega hröð að ég er ekki viss um að menn bara hangi með. Alltí einu verður maður aftur kominn með íbúðalánin sín í Íbúðalánasjóð og guð má vita hvað verður um lífeyrissparnaðinn sem ég hef verið að leggja inní Landsbankann, sem í síðustu viku var talinn vera traustasti banki á Íslandi.
Ég henti fram í bloggfærslu hér fyrir nokkrum dögum, í hálfkæringi, að við værum í viðræðum við Rússa um gjaldeyrisöflun til að tryggja gjaldeyrsforðann, að það sé hugsanlega raunin er nú bara ótrúlegt. Alveg er ég sammála Geir Haarde að þegar vinir þínir bregðast þá leitar þú nýrra vina, því við þurfum svo virkilega á vinum að halda akkurat núna. Það sannast hér eins og svo oft áður að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Það er líka athyglivert að Norðmenn skuli hafa getað grafið sig útúr olígróðanum í dag og boðið aðstoð, ef eftir væri leitað, nú þegar við erum komnir í samband við Rússa, afhverju í andskotanum komu þeir ekki fram fyrr, eða voru okkar menn kannski með einhvern hroka við þá.
Það þarf að nota þetta tækifæri sem er að gefast til að hreinsa til, hreinsa ruglið útúr íslensku viðskiptalífi og koma á eðlilegri hugsun og eðlilegum viðskiptaháttum og siðferði. Ég játa alveg að hafa verið orðinn smitaður af þessum glannaskap og jafnvel hampað sumum af þeim sem í ljós er komið að hafa leitt okkur sem þjóð út að þann þunna ís sem við nú erum á. Stjórnvöld eru ekki alls ekki stikkfrí í málinu og þurfa að axla sína ábyrgð að fullu og líka þeir sem bera ábyrgð að stöðunni eins og hún er. Auðvitað er þetta hluti af alþjóðlegri Fjármálakreppu en staðan á Íslandi er svo miklu miklu verri en annarsstaðar af því er virðist. Ég ætla að vona að okkur lánist að setja þannig leikreglur fyrir framtíðina að börnin okkar geti búið sátt og sæl og að allir hafi sömu möguleika til að blómstra og að við verðum með raunverulega löggjöf um eignarhald á fjármálastofnunum, fjölmiðlum og um hringamyndun í viðskiptum. Köngulóarvefirnir sem búið er að spinna eru margir hverjir svo flóknir að spunameistararnir eru löngu hættir að skilja þá.
Annars hef ég það bara gott og vona að þið hafið það eins og þið viljið.
Magnús G.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)