Jóladagur
25.12.2008 | 18:24
Mikið er ég feginn að við skulum halda Jól á hverju ári. Gera vel við okkur í mat, klæða okkur upp, gefa hvert öðru gjafir, tala hlýlega til hvers annars og njóta góðvildar. QE II eða Elizabeth drottnig Breta fluttu óvenju fallegt ávarp þessi jólin og minnti á þá sem eru fjarri fjölskyldum sínum þessi jólin og líka á þá sem eru farnir úr þessum heimi og við minnumst á stundum sem þessari.
Hugur minn leitar rétt ár aftur í tímann, þegar ég fékk þær sorglegu fréttir að slys hefði orðið um borð í skipi sem ég hafði með að gera, niður í Afríku. Því miður létust menn í slysinu og voru kallaðir frá fjölskyldum sínum á Jóladegi fyrir réttu ári síðan. Þessi atburður mun aldrei líða mér úr minni og ég hef ekki komist hjá því að hugsa oft til þeirra ágætu manna sem létu lifið í slysinu, blessuð sé minning þeirra og ég bið fjöskyldum þeirra Guðsblessunar.
Mér er oft hugsað til Jóladaganna 7 í röð sem ég eyddi á sjó, þegar ég var unglingur og ungur maður. Oft hugsaði maður heim þessa daga og sakanaði þess að vera ekki í faðmi fjölskyldunnar, en þessir dagar eru nú hluti af því sem gerir mann að því sem maður er, reynsla sem ég vildi ekki vera án. Það var ekki alltaf mikil helgi yfir þessum dögum en sumir voru góðir og aðrir minna spennandi fyrir 15 -22 ára ungling.
Einn er sá atburður sem ég hugsa alltaf til á Jóladag, en það er þegar skipbrotsmenn af Surðurlandinu börðust fyrir lífi sínu Norðausutur af landinu fyrir rúmum 20 árum. Því miður komust þeir ekki allir heim úr þeim Jólatúr, en þeir sem komu heim vour og eru miklar hetjur í mínum huga.
Jóladagurinn þetta árið er búinn að vera aldeilis stórkostlegur, ég hef eiginlega ekki gert neitt nema njóta þess að vera til í Ölduróti lífsins. Ég er þakklátur fyrir allar góðu kveðjurnar sem ég hef fengið og heimsóknirnar frá þeim sem mér þykir vænt um. Nú ætla ég að enda þennan fína Jóladag með því að heimsækja móður mína og leyfa henni að gefa mér hangikjöt með kartöflustöppu að borða í kvöldmatinn.
Farnist ykkur vel í glímunni við lífið, leyfið ykkur að njóta jólanna.
Hafið það eins og þið viljið
Magnús G.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.