Single á sunnudagskvöldi
30.11.2008 | 21:06
Síðasti sunnudagurinn í nóvember er að kveldi kominn og nýtt kirkjuár hafið. Ég átti því láni að fagna í gærkvöldi að fagna kirkjuársgamlárskvöldi í "Tilhleypingapartý í" hjá Séra Pétri í Óháða Söfnuðinum. Einu skilyrðin til að komast í þetta partý er að vera einhleypur "single" já og auðvitað vera boðinn í teitið. Ég fékk boð á föstudaginn og sagði strax já af einskærri forvitni og lét slag standa og mætti í litlu íbúðina hans Péturs sem tók á móti mér eins og við værum gamlir skólafélagar. Gestrisnin sem ég mætti var bara ótrúleg og allir brosandi og ánægðir. Eftir því sem leið á kvöldið fjölgaði og þetta var svona eins og umferðamiðstöð, fólk kom og fór og um tíma voru allar vistarverur íbúðarinnar fullar af fólki. Þarna hitti ég fólk sem þekkti og hafði ekki hitt lengi og annað sem ég kynntist og átti skemmtilegar samræður við og uppbyggjandi. Séra Pétur er búinn að halda þessum siði úti í um 30 ár og engan bilbug er á honum að finna og hann sagði að ég yrði velkomin næsta ár, ef ég væri ennþá einhleypur því það er algert skilyrði fyrir inngöngu. Frábært kvöld og stórkostleg hugmynd . Takk fyrir að bjóða mér með Guðbjörg..
Ég hef nú ekki tjáð mig mikið á blogginu mínu hér að udanförnu, sérstaklega vegna þess að ég bara vildi aðeins snúa ofan af mér í öllu þessu krepputali og ég vék mér aðeins undan fréttum, en auðvitað getur maður ekki alveg komist hjá því að fylgjst með. Nokkur ótrúleg mál hafa komið á daginn undanfarna viku og eins og Stím og Giftar málin sem orsaka nú bara hroll þegar maður hugsar til þeirra, var Axeli Gíslasyni hugsanlega mokað útúr Samvinnutryggingum GT (forvera) Giftar af því að hann var ekki til í að braska með eigur annarra, ég bara spyr ? Þetta Giftar mál verður að rannsaka í botn og ákæra og dæma menn ef þeir hafa gerst sekir um glæpi. Ég er einn af þeim sem átti fé í þessu félagi og enginn hafði heimild til að gefa annar en ég. Einnig finnst mér þetta Stím mál alveg ótrúlega skondið og vera svo flott dæmi um ruglið og blinduna sem menn voru haldnir um að hlutirnir mættu ekki og gætu ekki lækkað í verði, eins og hlutabréfin í Glitni, því þá væri veislan búin. Ekki veit ég hvort þetta er löglegt (hlýtur að vera á grensunni) en vissulega er þetta á öllum landamærum um siðleysi, heiðarleika og trúverðugleika sem banki verður að hafa.
Ríkisstjórnin situr sem fastast og mér finnst menn og konur í stjórninni vera að reyna að telja okkur trú um að að ástandið verði miklu verra ef lýðræðinu verður hleypt lausu og fólki gefinn kostur að velja sér Leiðtoga, því enginn er í því hlutverki núna, það stígur enginn upp og tekur af skarið, nema Þorgerður Katrín sem er eitthvað að burðast við það, löskuð af umræðu um þáttöku eiginmanns hennar í einhverju sukku í Kaupþingi, ég held hún segi satt um sinn þátt í því máli, en traustið er bara farið þvi miður og hún nær ekki í gegn alla vega ekki ennþá. En af öllum öðrum ólöstuðum á stjórnarheimilinu þá, að mínu mati ber hún af eins og gull af eir og hlýtur að eiga góða möguleika á að leiða flokkinn á næstu árum, eða þann hluta hans sem vill ESB aðild, ég held hann klofni í herðar niður á vormánuðum.
Það er nú varla hægt að tala ógrátandi um blessaðan Framsóknarflokkinn sem er bara í henglum eftir þessa sjálfmiðuðu ákvörðun formannsins sem gafst upp á ögurstundu og hljóp með skottið á milli fótanna til heitu landanna, þegar eitthvert mesta frost sem komið hefur í íslensku samfélagi gengur yfir. Að mínu mati er þetta vingulsháttur og ég vona að Guðni finni sér verkefni í veislustjórn því í því hlutverki er hann frábær og fáir betri en hann á því sviði. Ég held að framsóknarflokkurinn sem stofnun eigi góða framtíð fyrir sér, EF vel tekst til við að skipta um forystu í flokknum og þá á ég við stjórn og forystumenn flokksins þ.m.t. alþingismenn hans alla sem setið hafa undanfarin 2 kjörtímabil, þetta og síðasta og lífaldur fólks á ekki að ráða því hvort það situr er fer, heldur þáttakan og ábyrgðin sem eiga að bera á því ástandi sem nú ríkir. Ég held að stefna og hugsjónir Framsóknarflokksins hafi verið mistúlkaðar og misnotaðar á undanförnum árum og þessvegna hefur fólk flúið flokkinn og fundið sér stað annarsstaðar. Flokkurinn flaut frá fólkinu og ég held að það hafi gerst af því að hann hefur verið stjórnlaus mjög lengi og það sýnir sig í því hvernig forystumenn flokksins undanfarna áratugi yfirgáfu hann, fyrst Halldór Ásgrímsson fyrir 2 árum eða svo og svo Guðni Ágústsson núna, hvernig þeir yfirgáfu flokkinn hlýtur að kalla á spurningar um hæfileika þeirra til að leiða stjórnmálaflokk. Ég vona bara að flokknum auðnist að finna sér "alvöru" leiðtoga til að leiða flokkinn inn í framtíðina og takast á við verkefnin sem framundan eru, annars verður hann kominn í þátíð innan nokkurra missera.
Hafið það eins og þið viljið, fullveldisdagurinn á morgun og við undir hælnum á IMF og Seðlabankanum, ég held ég vildi frekar vera í ESB.
Magnús G.
Athugasemdir
Bara einfalt Maggi. Pétur Þorsteins frá Hömrum í Reykholtssveit er snillingur. Ég kynntist honum af alvöru rétt um tvítugt. Pétur hefur alltaf notað gömul og góð orð úr landbúnaði yfir samskipti fólk og þett tilhleypingakvöld er frá því komið. Ég man eftir ferð okkar nokkurra á svipuðum aldri austur á firði á áttunda áratugnum og erindi Péturs, sem þá var að sjálfsögðu bara í menntaskóla, var að "kanna kerin á kvenfólkinu." Eftir fyrsta dag fyrir austan ávarpaði hann alla: "sæll gæskur," "sæl gæskan". Ég fluttist síðan austur með austfirskri konu nokkrum árum síðar. .....Pétur skilar árangri.
Haraldur Bjarnason, 1.12.2008 kl. 21:53
Maggi. Þetta er einfalt Pétur frá Hömrum í Reykholtsdal er snillingur og hefur alltaf verið. Ég kynntist honum vel rétt fyrir tvítug og orðasmíði hans er landsfræg. Hann kalliaði t.d. þá sem litlir voru "smánda", sem var stytting á smáhundur. Hann gaf síðar út orðabók sem hér að mig minnir "pétríska". Ég man eftir einni ferð okkar austur á firði nokkurra félaga í byrjun áttunda áratugarins. Þá var Pétur ekki orðinn prestur, var í menntaskóla. Við þvældumst á Moskvits um firði og sveitir á Héraði. Alltaf hafði Pétur orð fyrir okkur og ég að eftir einn dag var hann farinn að ávarpa sveitamenn og aðra: "sæll gæskur" og "sæl gæskan". Yfirskrift þessara ferðar okkar austur kom auðvitað frá Pétri og var sú að "kanna kerin á kvenfólkinu." Nokkrum árum seinna flutti ég austur með austfirskri konu og var þar í 22 ár.
Haraldur Bjarnason, 1.12.2008 kl. 22:01
kvitt kvitt
auðvitað á maður að nýta öll tækifæri til að prófa eitthvað nýtt!
Life will never be the same...!!, 2.12.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.