Ég hef verið að velta fyrir mér
12.11.2008 | 17:22
undanfarið hvers vegna við erum komin í þá stöðu sem við erum í og mín niðurstaða er eftirfarandi; Alger skortur á trausti. Ég held að upphaf fjármálakreppunnar í USA hafi verið skortur á trausti á gagnvart skuldurum húsnæðislánanna (undirmálslánanna) menn hættu að treysta því að skuldararnir gætu borgað. Nothing is as fast as the speed of trust, segir einhversstaðar og það sama á við um hraða vantraustsins. Þegar traustið þvarr í USA fór það eins og eldur í sinu um allar koppagrundir alheimsins og nú er svo komið að við Íslendingar erum gjörsamlega rúnir öllu trausti og við fáum ekki einu sinni aðstoð IMF sem aðstoðar þriðja heims ríki og afgreiðir umsóknir þeirra á nokkrum dögum, en þeir treysta ekki áætlunum okkar sem ég hélt að hefðu verið lagðar fram fyrir löngu, í það minnsta minnir mig að Geir hafi sagt það, þegar umsóknin var lögð fram. Ég get ekki leynt því að mér finnst vera alger skjaldböku bragur á ríkisstjórninni, kannski er ekki hægt að vinna þetta hraðar, en afhverju í ósköpunum koma menn ekki með skýringar fyrir okkur. Það er eins og ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir því að þjóðin er tiltölulega vel menntuð og krefst svara og skýringa, við viljum ekki láta kalla okkur lýð eða skríl eða vitleysinga eins og fyrrverandi forseti alþingis hafði á orði þegar hann þurfti að fara bakdyramegin inní Alþingishúsið, Hvaða vitleysa er þetta !! sagði höfðinginn þegar hann mætti smá mótspyrnu og mjög eðlilegum ábendingum um óánægju fólksins í landinu. Ég tek ofan fyrir fólkinu sem myndar skjaldborg um Alþingishúsið og mótmælir í bænum á Laugardögum. Langstærsti hluti þessa fólks hefur misst allt traust á stjórnvöldum landsins, stjórn og stjórnarandstöðu og embættismönnum sem gleymdu sér á vaktinni.
Leiðtogar ríkisstjórnarinnar eru rúnir öllu trausti og þeir munu ekki geta endurheimt það hjá þjóðinni að ég tel og þessvegna munu þeir ekki geta endurheimt traust á Íslandi og Íslendingum hjá öðrum þjóðum. Hugsa sér að heyra fréttir af því að fjármálaráðherrann okkar skuli vera skammaður í Brussel af kollegum sínum, ljótt er, ef satt er. Forsetinn sjálfur að verða sér og þjóðinni til skammar í hádegisverði hjá danska sendiherranum, ljótt er, ef satt er. Ekki veit ég hvort þessar fréttir eru réttar og sannar. Hvers vegna í ósköpunum komast svona fréttir á kreik og ef þetta er rangt þá verður að upplýsa okkur um það strax annars bara förum við að trúa því að þetta sé rétt og þá minnkar traustið enn og aftur.
Það verður einhver að rísa upp núna og verða raunverulegur leiðtogi þessarar þjóðar, ég bara get ekki að því gert að mér finnst ríkisstjórnin vera eins og skjalbökupar í göngutúr á sunnudagseftirmiðdegi og stjórnarandstaðan kallar annað slagið á parið og segir því að haska sér nú, en ekkert gerist því skjaldbökur eru skjaldbökur og komast ekkert áfram, eins og allir vita.
Það sem Íslendingar þurfa nú er að endurheimta traustið og ef okkur tekst það fljótlega, þá er ekkert sem hefur meiri hraða en traustið og við náum vopnum okkar á ný. Við verðum að finna okkur nýja leiðtoga í stjórnmálaflokkunum sem við getum treyst svo við komust áfram og úr sporunum á meiri hraða en skjaldbökurnar.
Mig langar að setja inn hlekk með stuttu myndbandi sem mér var bent á í morgun og snart mig. Myndband um hversu mikilvægt er að hafa jákvætt viðhorf til lífsins og þess sem það hefur uppá að bjóða á hverjum tíma. Og af þessu tilefni segi ég;
http://www.facebook.com/ext/share.php?sid=33581089452&h=y4Uid
Hafið það eins og þið viljið og förum að einhenda okkur í að endurvekja traustið.
Magnús G
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.