Við erum drullugóðar í fótbolta
31.10.2008 | 00:04
sagði Hólmfríður Magnúsdóttir og ég er henni svo sannarlega sammála. Til hamingju stelpur með með þennan frábæra árangur að komast í lokakeppni EM. Það var virkilega gaman að horfa á leikinn og sjá baráttuandann og ákveðnina í öllu liðinu, það komst ekkert annað að en sigur og hann var sannfærandi. Ég held að þetta sé það sem fyrir okkur liggur sem þjóð, að berjast saman að því að komast áfram í Evrópu og þá innan ESB. Það er að verða mér ljósara með degi hverjum að við eigum enga möguleika sem eitthvert eyríki úti í miðju Norður Atlantshafi. Ég er ekki mjög hrifinn að hugmyndum um að taka upp norsku krónuna og slá þar með á frest hugsanlegri upptöku evru hér á landi. Fráfarandi formaður LÍÚ mælti gegn inngöngu í Evrópusambandið og sagði það ekki henta okkur sem þjóð af því að við myndum missa stjórn á auðlindum okkar. Hann er væntanlega bara að tala um fiskinn í sjónum. Ég sé nú ekki betur en að þjóðin sé fyrir löngu búin að missa stjórn á þeim og þeir sem hafa þær voru búnir að belgja svo út verið á kvótanum að að sjávarútvegurinn er veðsettur til andskotans og á enga framtíð fyrir sér án stórfelldrar niðurfellingar á skuldum og algerrar endurskipulagningar. Rétturinn til að nýta veiðheimilirnar í því formi sem hann er í dag er úreltur og nýtt form verður að koma til. Hvað ætli kvótakíló kosti í dag ? því getur enginn svarað af því að það er enginn markaður og þar með er þetta væntanlega verðlaust, því ef enginn vill kaupa þá er ekkert verð.
Það þarf kjark núna til að skera upp allt kerfið, fjármálakerfið okkar hrundi og fór í sjálfskipaðan uppskurð með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina og ég óttast að við eigum eftir að sjá þvílikan óþverra í tengslum við hrunið að við höfum ekki einu sinni ímyndunarafl til að ímynda okkur allan sóðaskapinn sem var í gangi. Ég vona bara að þeir sem eiga að bera ábyrgð, verði dregnir til ábyrgðar og látnir axla hana. Þjóðin hefur núþegar yfirtekið byrðarnar sem hlutust af ævintýrunum og græðginni sem réði ríkjum.
Ég held ég setji hér inn spakmæli sem ég fékk í gær, af því að mér finnst það eiga svo vel við þessa dagana þegar allir kenna öðrum um ástandið;
- Manni getur misheppnast mörgum sinnum, en hann er ekki misheppnaður fyrr en hann fer að kenna öðrum um -
Áfram Ísland .
Takk fyrir stelpur fyrir að gera mig að stoltum Íslendingi í kvöld
og hafið það eins og þið viljið
Magnús G.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.