Súpueldhús á sjávarútvegssýningu

Mér fannst Eimskipsmenn ótrúlega næmir á ástandið á nýafstaðinni sjávarútvegssýningu í Smáranum og Fífunni í Kópavogi.  Þeir settu upp súpueldhús utan við höllina og buðu núverandi, fyrrverandi og verðandi útgerðarmönnum uppá heita súpu í frostinu, þvílík snilld.  Mér hefur alltaf fundist súpueldhús vera merki kreppunnar, þar sem fólk stendur í röð og fær súpuspón, gufuna leggur upp úr pottinum í frostinu og þessari stemmningu náðu þeir alveg í Kópavogi. 

Annars fannst mér menn almennt daufir á þessari sýningu, enda mikil óvissa um framhaldið og menn einfaldlega hræddir.  Ég held að ástandið sé vissulega ótryggt og að framundan séu erfiðleikar sem ekki allir munu lifa af fjárhagslega.  Hinsvegar held ég að enginn muni svelta í hel og að "kreppan",  verði ekki eins djúp og sumir hafa spáð og að hún verði ekki eins langvinn heldur.  Ég óttast að menn tali ástandið of langt niður, á sama hátt og menn töluðu ástandið of hátt upp áður.

Ég held að við sem þjóð verðum að sýna hvað í okkur býr núna, sýna að við séum með eitt hæsta menntunarstig í heimi og hamingjusamasta þjóð í heimi um árabil.  Látum ekki þennan "fjárskjálfta" setja okkur alveg út af sporinu, honum lýkur eins og öðrum skjálftum og við náum fyrri styrk. 

Ég var að horfa á nýjan skemmtiþátt með Ragnhildi Steinunni, flottur þáttur hjá henni og Bubbi stóð sig vel að vanda.  Mér fannst hann reyndar óvenju hógvær, rólegur og auðmjúkur.   Hann er greinilega að eldast og prógrammið sem hann talar svo oft um er að virka. 

Image

 

Hafið það eins og þið viljið og munið að það lætur enginn okkur líða illa án okkar samþykkis.

Magnús G. Whistling


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband