Aðfangadagur Jóla ......
24.12.2007 | 11:31
Góðan aðfangadaginn, vona að allir séu búnir að öllu, ég á bara eftir að rífa rjúpurnar úr kápunni og þá er ég klár í jólin.. Ég verð nú bara að þakka honum Vigga frænda mínum á Fáskrúðsfirði fyrir rjúpurnar sem hann sendi mér og ekki bara bjargar hann miklu á jólunum fyrir mig, heldur var hann örugglega að vinna sér inn vist á himninum með þessu góðverki.. Takk kæri frændi, svona góðverk fær maður alltaf launuð, eigðu gleðileg jól og öll þín fjölskylda. Í gær var Þorláksmessa, ef einhver skyldi hafa misst af því og þá var árleg skötuveisla hér hjá mér í boði móður minnar og ótrúlega er þetta nú skemmtilegur siður að koma svona saman til að borða og bara til að hittast og slappa aðeins af í öllu jólastressinu.. Skatan var frábær að vanda, elduð á svölunum og allir fengu nóg, líka þeir sem voru í pizzunum. Ég er búinn að pakka inn öllum jólapökkunum og vonandi vera allir ánægðir með val mitt á gjöfum þetta árið. Ég er svo heppinn að jólin verða hefðbundin hjá mér ég verð með krökkunum mínum og Helgu minni fyrrverandi eiginkonu og núverandi vinkonu og ég er nú afskaplega þakklátur fyrir að við skulum geta átt þessa stund saman fjölskyldan og notið hennar.. það verður tvíréttað í kvöld, rjúpur og hamborgarahryggur... Ég skrapp aðeins í bæinn í gærkvöldi með vinkonu minni og kíkti á jólaösina og ég verð að segja að það er alltaf jafnskemmtilegt að sjá allt þetta fólk á Laugaveginum og Skólavörðustígnum á Þorláksmessu og flestir bara að spóka sig og stresslausir með öllu, skemmtilegur siður að kíkja aðeins í bæinn á þessum degi.. Ég datt inní Gallery á Skólavörðustígunum og keypti mér litla mynd eftir Kjarval, já ég sagði Kjarval, Maríu S. Kjarval, frábær mynd...
Með þessum orðum ætla ég að kveðja ykkur og óska öllum bloggvinum og þeim sem heimsækja þessa síðu mína, gleðilegra jóla og vona að þið hafið það eins og þið viljið á jólunum, ég ætla að hafa það gott.....
Magnús G.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.