Hjólað heim.....
16.6.2008 | 10:03
Dagur 1.
Kominn á Djúpavog eftir fyrsta legg á leiðinni heim. Það gekk ljómandi vel í dag, lagði í hann kl. 1150 frá Búðum í Fáskrúðsfirði og fór á Stöðvarfjörð í einni lotu. Hvíldi í korter og hélt svo áfram sem leið lá um Breiðdalinn og suður í Berufjörð.. 100 km lágu í dag og engin óhöpp eða óvæntar uppákomur á leiðinni.. Náttúran skartar sínu fegursta og maður sér náttúruna, gróðurinn, lækina, fossana, fuglana og fegurð og mikilleik fjallanna. Fínn dagur að kveldi kominn og ég fer að leggjast til hvílu í litla Gula tjaldinu mínu sem rúmar mig og mig ..
Dagur 2.
Fór af stað um 10 leytið og hjólaði sem leið lá yfir á Höfn og kom þangað um 2130 107 km á mæli, veður gott en smá vindur á köflum sem tafði mig um eina 2 tíma. Gist á tjaldsvæðinu á Höfn í flottu veðri.. Enn í nokkuð góðu formi en smá doði í vinstri hendinni eftir daginn..
Dagur 3.
Fór frá Höfn um 11 leytið og hjólaði í vesturátt án þess að hafa ákveðinn næturstað í huga, endaði á Hótel Freysnesi um 0030 eftir 135 km vegalengd og helvíti var gott að taka bara herbergi í nótt enda rigning þegar ég kom þangað og ég hefði örugglega ekki getað tjaldað vegna doða í vinstri hendinni sem hefur aukist nokkuð mikið.. Ég var heppinn í gær að að vera hreinlega ekki drepinn, fékk bíl á móti mér rétt vestan við Smyrlabjörg og hann stefndi bara beint á mig og ég alveg úti í kanti mín megin. Ég held að bílsstjórinn hljóti að hafa sofnað eða verið í annarlegu ástandi, þetta er það svartasta sem ég hef séð á öllum þessu hjólaferðum mínum og ég var ansi lengi að jafna mig á þessari uppákomu. Annars hef ég það fínt að öðru leyti en höndin ergir mig mikið, á mjög erfitt með að t.d. skrifa vegna doða í 2 fingrum og smá stjórnleysi á höndinni, sennilega klemmt taug, sem jafnar sig aftur .
Fróður maður sagði mér að ég væri hálfnaður til Reykjavíkur frá Fáskrúðsfirði hér í Freysnesi
Ég ætla að leggja í hann um 12 leytið og fara vonandi á Klaustur í næsta legg.
Hafið það eins og þið viljið
Magnús G í Freysnesi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)