Öryggisnetið brást

sagði Páll Skúlason heimspekingur og fyrrverandi Háskólarektor.  Til þess að vera svolítið í markaðshyggjunni áfram þá verð ég nú að segja að að ég var alveg að  "kaupa" skoðanir hans á ástandinu á Íslandi í dag.   Ég er hjartanlega sammála honum um að öryggisnetið, stjórnvöld, ríkisstjórn og embættismanakerfið okkar brást okkur borgurum þessa lands og þá á ég enn og aftur við alla þingmenn hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.  Það er sorgleg staðreynd að þingmenn og forystumenn í stjórnmálum á Íslandi eru rúnir öllu trausti og það er ekkert persónulegt, það er bara staðreynd.  Við þurfum nýtt fólk inní stjórnir flokkanna og nýtt fólk eða endurnýjað umboð og traust þeirra gömlu til að takast á við uppbyggingu á ríkinu á nýjan leik.  Við þurfum að byggja upp nýtt og betra Ísland með nýja hugmyndafræði, hugmyndafræði sem gengur út á miklu meiri jöfnuð og miklu meiri samvinnu og jafnari skiptingu á tækifærum og verðmætum landsins sem er eign okkar allra,  ekki bara nokkurra.  "Gróðærið" er búið og þessi gengdarlausa samkeppni allra um allt er komin á endastöð.  Ég er búinn að halda því fram í mörg ár að samfélag eins og okkar getur ekki byggst á því að það séu þrír einstaklingar sem ráða öllu vöruverði á Íslandi og geti skammtað okkur lífsskjörin í gegnum verðtrygginguna.  Það er ekki hægt að búa við það að þeir sem ráða öllum flutningum, fjármálastarfssemi, útflutningsstarfssemi, innflutningsstarfssemi, tryggingum, fjölmiðlum og verslun,  komist fyrir í lítlilli rútu, eins og meðal hljómsveit sem er á leiðinni á sveitaball.

Við verðum að hefja stjórmálin til vegs og virðingar á nýjan leik,  það verður að koma þeirri hugsun inn að stjórnmál eru ekki fag, heldur lýðræði og við verðum að fá fólk til þáttöku í stjórnmálum á nýjan leik til að gera þau áhugaverðari fyrir þegna landsins.  Það þarf nýja hugsun og hún kemur bara með því að fólk taki þátt og komi hugmyndum sínum á framfæri.

Annað sem verður mér hugleiknara með hverjum deginum sem líður er þessi hugsun um hver hornsteinn hins nýja Íslands gæti verið.  Það er ljóst að það kerfi sem við byggðum á og flest trúðum að væri af hinu góða brást og skilur okkur eftir með svo sárt ennið að sumir jafna sig aldrei.

Ég fæddist fyrir tæpum 50 árum austur á fjörðum,  ég ólst upp á miklu samvinnuheimili, enda var faðir minn Kaupfélagsstjóri hjá Kf. Fáskrúðsfirðinga, sem átti og rak bæði verslun, útgerð, fiskverkun og sláturhús.  Þetta ágæta Kaupfélag lifir enn góðu lífi og er undir trausti stjórn, kaupfélagsstjóra sem aldrei hefur misst sjónar á grunngildin í samvinnuhugsjóninni,  sem er hin samfélagslega ábyrgð og arðsemin í að taka samfélagslega ábyrgð.  Hægt væri að nefna önnur frábær fyrirtæki eins og Kf. Skagfirðinga og Kf. Strandamanna á Hólmavík, svo einhver séu nefnd.  Sláturfélag Suðurlands og MS  sem í það minnsta voru samvinnufélög ef þau eru það ekki ennþá.  Reynsla mín af samvinnuhugsjón og þvi að fólk taki sig saman um að leysa sameiginlega verkefni, kallar fram æ sterkari hugsun um að lausnin fyrir okkur gæti verið fólgin í nýjum samvinnufélögum, þar sem allir hafa fjárfesta hagsmuni af því að allir séu við sama borð og njóti réttlætis og að lýðræði sé virkt með þá grundvallarhugsjón að einn maður sé eitt atkvæði. SÍS gamli og Kaupfélögin urðu undir í baráttunni við hin nýju viðhorf í viðskiptum og kannsi fór eins og fór af því að aðhaldið frá samvinnufélögunum skorti, þ.e.a.s.  aðhaldið frá fólkinu, því engin eru samvinnufélög án félaganna.

Eygló Harðardóttir þingkona hefur undanfarið talað mjög fyrir endurvakningu samvinnufélaga og á hún allan minn stuðning vísan í þeirri umræðu enda trúi ég því að "sagan endurtaki" sig og að samvinna og samvinnuhugsun verði það kemur okkur útúr þeim ógöngum sem við erum í.  Ég held að við Íslendingar séum í grundvallaratriðum miklir samvinnumenn enda hefðum við aldrei geta byggt þessa litlu eyju hér norður frá ef við værum ekki samvinnumenn.

Ég held að heimspekingurinn Páll Skúlason hafi mikið til síns máls þegar hann telur að framtíð Íslands liggi fyrst og fremst í gildum samvinnunnar og endurvakningar á þeirri góðu hugsjón.

Vinnum saman

Magnús G. Whistling

SÍS  GAMLI     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband