Það eru ávallt þrjár hliðar á hverju máli

mín hlið, þín hlið og Rétta hliðin, sagði mæt kona í athugasemd á bloggsíðunni minni fyrr í dag.  Hún hefur þetta eftir ömmu sinni og sjálfsagt hefur amma hennar Huldu lært þetta af reynslunni í gegnum árin.  Þessi staðhæfing eða máltæki eða hvað við köllum það, á sérstaklega vel við þessa dagana, þegar ásakanir ganga um þjóðfélagið þvert og endilangt.   Við getum hins vegar ekki stöðvað alla umræðu og sett alla hluti í rannsóknarrétt til að finna réttu hliðina á hverju máli, stundum er hún alls ekki augljós og aðgengileg fyrir alla, sérstaklega ekki þessa dagana, þegar mörgu virðist vera leynt eða reynt að leyna réttu hliðinni á málunum.  Einhverjir verða að hafa kjark til að segja sína skoðun og stundum verða menn að éta eitthvað ofan í sig og sætta sig við annað sér rétta hliðin á málinu.  

Ég er hinsvegar alveg sammála því að það er gott að hafa þessa reglu í hávegum þegar maður setur skoðanir sínar á blað og gæta þess að meiða ekki fólk og gera því ekki upp verk eða skoðanir.  

Ég lærði ungur af einhverjum vitrum manni sem ég átti samleið með að; "Það er tvennt sem ekki er aftur tekið Magnús minn,  það eru töluð orð og glataður meydómur"  svo satt. 

Annars  er ég á leiðinni til Englands í fyrramálið, í löngu ákveðna ferð til Bournemouth á suðurströndinni að sækja mér upplýsingar og andlega orku fyrir veturinn.  Ég verð nú eiginlega að segja að ég er hálffeginn að eiga þess kost að komast aðeins í burtu í nokkra daga og komast í  annað umhverfi.   Ég er hinsvegar alveg ákveðinn í því að villa ekki á mér heimildir í Englandi og ef einhver svekktur ICE SAVE innistæðueigandi vill berja mig fyrir að vera Íslendingur þá lofa ég að hann þarf að hafa fyrir því, meiru get ég ekki lofað.   Annars hef ég engar áhyggjur af bretum sem eru eitthvert allra skemmtilegasta og besta fólk sem ég hef kynnst um dagana og mér finnst London alltaf vera mitt annað heimili á eftir Kópavogi,  þannig eru minar góðu minningar frá tímanum sem ég bjó í London.

Ég hef auðvitað verið svolítið upptekinn af ástandinu í landinu okkar og fylgst með fréttum af fremsta megni og m.a. var ég að horfa á Markaðinn á laugardaginn og  sonur minn 10 ára lá í sófanum og horfði á þáttinn um stund og sagði svo;

"Pabbi,  viltu slökkva á þessum þætti, ég þoli ekki að hlusta á þessa menn tala um þessa kreppu.  Pabbi afhverju hættum við ekki bara að tala um þessa kreppu og förum að tala um eitthvað annað í fréttunum.  Ég er viss um að kreppan bara fer ef við hættum að tala um hana, slökktu núna".

Þessi orð sonar míns vöktu mig til umhugsunar um hversu huglægt þetta ástand er og um hvaða viðhorf við höfum til lifsins og hvernig við sjáum hlutina fyrir okkur.  Þetta er auðvitað spurning um hvort við sjáum glasið sem hálffullt eða sem hálftómt.

Ég er að reyna að taka mig í gegn og tala minna um kreppuna og sjá glasið hálffullt og hafa jákvætt viðhorf til lífsins og ástandsins í landinu og ég hef eiginlega ákveðið að gera það sem ég get til að sjá mér farborða og nýta þau tækifæri sem ég hef og láta ekki umræðuna eða ástandið trufla mig. 

Ég er mjög þakklátur Huldu fyrir að vekja mig til umhugsunar um hliðarnar þrjár og Hákoni fyrir að vekja athygli á þessu niðurdrepandi krepputali allar stundir, sem maður sogast inní ef maður gætir ekki að sér...

Hafið það eins og þið viljið og drekkið af hálffullum glösum sem eru allt í kring.

Magnús G..Whistling

Ægisíðan 2008 003 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband