Góð helgi að baki..

Ég átti ótrúlega rólega helgi núna,  Hákon minn sem átti að vera hjá mér kom aðeins á föstudaginn en flaug svo norður á Akureyri í gær í afmæli frænda síns og kom ekki fyrr en kvöld aftur.  Ég tók ákvörðun um að slappa vel af þessa helgi og gerði það og endaði svo á því að við Sigrún Ásta buðum Helgu, Guðjóni Má og Steinari í mat í kvöld.  Við elduðum villigæs og kjúkling í aðalrétt með sætum kartöflum og Hvítlauksristaða humarhala í forrétt.  Skemmtilegt að koma svona saman endrum og sinnum, ekki síst eins og tímarnir eru núna,  þá er enn mikilvægara að treysta fjölskyldu og vinabönd. 

Annars er ég nákvæmlega sömu skoðunar og ég var fyrir helgi á ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna á ástandinu og það hefur ekkert nýtt komið fram sem gerir það að verkum að ég hafi fengið ástæðu til að skipta um skoðun nema síður sé.  Reyndar botna ég ekkert í þessari fylgisaukningu  hjá  SF og VG  því þeir er auðvitað alveg jafnábyrgir þó að þeir hafi verið í stjórnarandstöðu á síðustu árum.  Ég ætla að vona að fólkið sem er í flokkunum og hefur einhverja ábyrgðartilfinningu,  taki sig saman um að skipta út þessu fólki og setji annað fólk í staðinn í forystuna til að endurheimta traust á stjórnmálaflokkana og stjórnmálamenn almennt, sem þykja því miður ekki merkilegir pappírar þessa dagana.  Í lýðræðisþjóðfélagi verða stjórnmálamenn að njóta trausts almennings annars endar þetta bara í byltingu. 

Ég vona að það fari að komast á eðlileg samskipti á milli okkar og nágranna okkar og ekki síst að það komist á eðlilegar gjaldeyrisyfirfærslur á milli landa áður en allt fer hér í kalda kol í atvinnulífinu.  

Annars fannst mér viðtalið við Guðmund Magnússon í Silfri Egils ansi merkilegt og mjög margt í hans málflutningi sem mér hugnaðist ágætlega m.a. það sem hann sagði um auðlindir þjóðarinnar og hvernig umræðan um þjóðareign hefur þróast á undanförnum árum.  Við verðum að koma þessum auðlindamálum á hreint í þessari atrennu og endurskoða kvótakerfin bæði í sjávarútvegi og landbúnaði,  annars verður enginn friður í þessu landi til lengri tíma.

Hafið það eins og þið viljið

Magnús G. Whistling

FÝKUR YFIR HÆÐIR 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég held Maggi minn að þessir flokkar okkar séu að syngja sitt síðasta. Hvað kemur í staðinn veit ég ekki, en þetta verður að breytast.

Eyþór Árnason, 27.10.2008 kl. 00:06

2 Smámynd: Fríða Bára Magnúsdóttir

Hafðu það eins og þú vilt Gaman að fylgjast með síðunni þinni. Kveðja Fríða

Fríða Bára Magnúsdóttir, 28.10.2008 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband